143. löggjafarþing — 86. fundur,  1. apr. 2014.

störf þingsins.

[14:07]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Mönnum hefur hér orðið tíðrætt um að tvö mál ríkisstjórnarflokkanna séu ekki rædd í dag en verði rædd á morgun. Mönnum verður líka tíðrætt um það hvað hafi verið gert á síðasta kjörtímabili og að lítið yrði gert á þessu kjörtímabili. Ég held að það hljóti að vera kominn tími til fyrir þingmenn þjóðarinnar að hætta að karpa.

Ég er stjórnarþingmaður. Ég var stjórnarandstöðuþingmaður á síðasta kjörtímabili. Ég veit það jafn vel og aðrir hér inni að margt var vel gert á síðasta kjörtímabili. Það er asnalegt að standa hér dag eftir dag og karpa um það hvor hópurinn ætlar að gera betur, ríkisstjórnin sem sat síðasta kjörtímabil eða sú ríkisstjórn sem tók við í maí 2013 og er nú að koma með sínar áherslur í leiðréttingu á verðtryggðum fasteignalánum heimilanna og síðan með séreignarsparnaðinn.

Það er kjánalegt af þingmönnum þjóðarinnar að standa hér hver um annan þveran og keppast við að mæra sína stjórn. Tökum einhvern tímann höndum saman í því verkefni sem er fyrir heimilin í landinu að ná tökum á þeim vanda sem þau standa frammi fyrir. Núverandi ríkisstjórnarflokkar sögðu í aðdraganda kosninga að þeir ætluðu að fara séreignarleiðina og í leiðréttingu á verðtryggðum fasteignalánum heimilanna.

Í þá vegferð er verið að fara núna. Hættum þessu karpi um það hvort þetta er verra eða betra en menn reiknuðu með. Fögnum í það minnsta þeim skrefum sem eru tekin og þökkum fyrir það sem þegar hefur verið gert.

Annað er bara ömurlegt, hv. þingmenn og hæstv. forseti, fyrir okkur hér.