143. löggjafarþing — 86. fundur,  1. apr. 2014.

örnefni.

481. mál
[15:50]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við getum auðvitað ekki haft fyrirkomulag okkar mála hvað varðar örnefni þannig að þau séu síbreytileg og breytist með ábúendum. Ábúendur koma og fara en örnefni, sem við höfum mörg hver fengið í arf allt frá landnámi og fyrstu tíð búsetu í landinu, eiga að halda sér.

Ég vek athygli hv. þingmanns á 5. gr. þessa frumvarps sem fjallar einmitt um málsmeðferð og hvernig farið skuli með ágreining og annað slíkt. Síðan er önnur umræða sem tekið er á í 7. gr. sem snýr að nafngiftum nýrra náttúrufyrirbæra; þar sem talið er að nýtt náttúrufyrirbæri þarfnist nafns þá sé það á verkefnasviði viðkomandi sveitarstjórnar að hlutast þar til um. Sé náttúrufyrirbærið utan stjórnsýslumarka sveitarfélaga liggur frumkvæðið hjá ráðherra.

Aðalatriðið er að með frumvarpinu er lagt upp með þá meginstefnu að varðveita örnefni, tryggja að forn örnefni haldi sér en um leið að mynda möguleika fyrir það að kjósi menn að koma fram með ný örnefni séu gagnagrunnar sem haldi utan um slíkt, en það hreyfi ekki þeim örnefnum sem fyrir eru. Í því eru fólgin mikil menningarleg verðmæti sem okkur ber að varðveita. Ég legg líka áherslu á réttaröryggi, þ.e. það sem ég nefndi hér, til dæmis þar sem upp rísa deilur manna um staðhætti sem geta skipt miklu máli og miklir hagsmunir verið undir.