143. löggjafarþing — 86. fundur,  1. apr. 2014.

örnefni.

481. mál
[16:12]
Horfa

Elín Hirst (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig langar til að byrja á því að fagna þessu frumvarpi sérstaklega. Það er afar mikilvægt að varðveita þann menningararf sem felst í örnefnum. Ég mundi vilja, auk þess sem örnefnin sjálf eru varðveitt og tala ég sem sagnfræðingur, að þess verði einnig gætt að uppruni þeirra og þýðing, þeim atriðum sé haldið vel til haga. Eins og hv. þm. Ásmundur Einar Daðason minntist á áðan þegar hann taldi upp örnefni í Dalasýslu þá geta tengsl slitnað mjög á milli þess þar sem örnefnin urðu upphaflega til og þess sem er í dag.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort hann hafi ekki áhyggjur af því, vegna þess að í gangi er að sjálfsögðu ákveðin alþjóðavæðing á sviði upplýsingatækni í nútímanum, að menningarverðmæti eins og örnefni glatist, t.d. á vefkortum og öðru sem er verið að búa til í tengslum við þessi alþjóðlegu kerfi.