143. löggjafarþing — 88. fundur,  2. apr. 2014.

frestun verkfallsaðgerða á Herjólfi VE.

536. mál
[00:33]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég álasa engum fyrir að draga aðrar ályktanir en ég geri í þessu máli. Fyrir mér snýst þetta ekki um verkfallsréttinn. Það má alveg ræða hann, mér finnst það hollt.

Fyrir mér snýst þetta um kjör eða deilu aðilanna sem við tölum hér um. Sömuleiðis hef ég skilning á erfiðum aðstæðum fólks í Vestmannaeyjum.

Þegar kemur að því að storka rétti á borð við félagafrelsi sem er tryggður með 74. gr. stjórnarskrárinnar tel ég sönnunarbyrðina ávallt á herðum þess sem vill ganga á þau réttindi. Ég tel einfaldlega ekki að þeirri sönnunarbyrði hafi verið mætt. Ég er enn ósannfærður eftir málefnalegar og um margt áhugaverðar umræður og finn mig því knúinn til að greiða atkvæði gegn frumvarpinu.