143. löggjafarþing — 90. fundur,  2. apr. 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[20:27]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er dálítið stórt mál og ég held að hv. þingmaður ætti að kynna sér það vel. Ef við skoðum bls. 54 í skýrslunni, sem ríkisstjórnin skilaði af sér í nóvember sl., kemur í ljós að 21 þús. lántakendur, bara hjá Íbúðalánasjóði, hafa nýtt sér það úrræði sem heitir greiðslujöfnun. Hjá Íbúðalánasjóði einum, þar sem stundum eru eldri lán og lægri en lánin hjá bönkunum og um helmingur íbúðalána er hjá Íbúðalánasjóði, eru það um 7,6 milljarðar sem eru inni á greiðslujöfnunarreikningi.

Umfangið er því töluvert og þetta getur þýtt að þessar aðgerðir missi marks. Ég er líka að reyna að átta mig á því hvers vegna verið er að bjóða fólki upp á að nota séreignarsparnaðinn sinn til að borga upp þann hluta lánanna þar sem bankinn tekur áhættuna eða fjármálastofnunin en ekki einstaklingurinn sjálfur. Það sama er að finna í skuldafrumvarpinu, sem við ræðum eftir helgina, þar er þessi þáttur líka látinn ganga fyrir. Ég er að reyna að átta mig á rökunum fyrir því, þau er ekki að finna í frumvarpinu. Þessu er bara lýst en þar er enginn rökstuðningur.

Að mínu mati, ef af verður, verður það mikill ljóður á ráði þessarar ríkisstjórnar að láta þetta ganga svona í gegn og hlífa þar með fjármálastofnununum algerlega fyrir því sem hér gerðist og láta heimilin sjálf bera áhættuna. Þetta finnst mér röng nálgun og ég vona að hv. þingmaður, sem lætur þessi mál til sín taka, láti sína menn heyra hvað þennan þátt málanna varðar. Annars er ég ansi hrædd um að þessar aðgerðir eigi (Forseti hringir.) eftir að fljúga langt yfir markið og fram hjá þeim sem þær eiga að hitta.