143. löggjafarþing — 90. fundur,  2. apr. 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[20:53]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S):

Virðulegi forseti. Frumvarp það sem við ræðum um séreignarsparnað og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar er í rauninni tilraun til þess að verða einhvers konar hvati til sparnaðar, til fjárfestinga í fasteign, þaki yfir höfuðið, og það er af hinu góða. Það er af hinu góða vegna þess að á liðnum árum hefur verið byggt hér upp umfangsmikið kerfi bóta sem er kallað vaxtabótakerfi og húsaleigubótakerfi. Hin hliðin er sú að allur sparnaður hefur verið skattlagður mjög mikið þannig að í rauninni er skattlagning sparifjár sem næst 100%, en hvatinn hefur verið til skuldsetningar. Árangurinn hefur ekki látið á sér standa þannig að skuldahlutfall miðað við ráðstöfunartekjur hefur hækkað úr hófi fram, fór líklega fram úr 100% um síðustu aldamót og hækkaði verulega eftir það, en á þeim sama tíma gerðist það að fasteignaverð hækkaði þannig að auðsáhrif fasteignareigenda urðu til þess að þeir urðu frjálsari til lántöku. Þetta leiddi náttúrlega til þess að á einum tímapunkti var komið að skuldadögum. Þeir skuldadagar hefðu komið hvort heldur sem hér varð fjármálahrun eða ekki.

Það sem ég tel frumvarpinu, þessum aðgerðum, til bóta er að hér er hvatning til sjálfshjálpar, sjálfsbjargar, að fólk eigi kost á því að hafa hvata til þess að leggja fram af tekjum sínum til að eignast þak yfir höfuðið.

Ég geri mér grein fyrir því að í því kann að verða eitthvert misvægi milli tekjuhærri hluta. Þetta kemur sennilega tekjuhærri hluta til meiri bóta en þeim sem tekjulægri er, en á móti má segja að þeir hafi dottið út úr vaxtabótakerfinu vegna þess að það verður ónæmt fyrir tekjum þegar tekjur hækka. Þetta er einungis tímabundin ráðstöfun. Ég vænti þess að fyrr en síðar finni menn leið til varanlegs hvata til að leggja fyrir til að byggja upp eigið fé í fasteignakaup.

Hér hefur margoft verið sagt að sjálfseignarkerfi fasteigna sé gengið sér til húðar. Ég tel að svo sé ekki. Það hefur enginn getað sýnt mér hver eigi að vera hinn raunverulegi ábati, hver eigi að vera kostnaðarmunur á milli leigumarkaðar og sjálfseignarbúskapar á fasteignum. Leiguverðið hlýtur alltaf að taka eitthvert mið af fasteignaverði. Leiguverð hlýtur alltaf að taka eitthvert mið af vaxtakjörum í landinu, þeir tveir þættir eru sameiginlegir, hvort heldur íbúðin er í leigu eða í eign. Þá hefur þeirri spurningu heldur aldrei verið svarað hver eigi að eiga, hver eigi að fjármagna þetta, þannig að ég fæ ekki séð að sú leið sem hefur verið farin, að hvetja fólk til að eiga eignir sínar, sé gengin sér til húðar. Það er í rauninni frekar eina varanlega leiðin sem er möguleg til lengdar.

Í þeim hlutföllum sem ég var að tala um, skuldir á móti ráðstöfunartekjum, þá jukust eignir á móti. Hverjar eru þær eignir? Í fyrsta lagi jukust lífeyriseignir, í öðru lagi stækkaði fasteignamarkaðurinn á þeim tíma. Það má því kannski segja að það hafi verið eðlilegt að einhver skuldahlutuföll ykjust.

Þá ætla ég líka að bæta því við sem er í raun í beinu framhaldi af því að fasteignaverðið er einn ráðandi þáttur í þeim vanda sem hér hefur verið, að hin eina raunhæfa kjarabót fyrir þá sem eru að koma nýir inn á fasteignamarkaðinn er lækkun fasteignaverðs. Það kann að vera að einhverjum muni líka illa að eignir þeirra lækki í verði og þá erum við komin að því að einhver telji sig vera að tapa og þá á samfélagið að vera ábyrgt fyrir þeim forsendubresti sem varð vegna lækkunar íbúðaverðs.

Virðulegi forseti. Ég tel að sú leið sem hér er verið að reyna að fara sé tilraunarinnar virði. Hún er ekki frekar en önnur mannanna verk gallalaus, jafnvel þótt hún fái umfjöllun í efnahags- og viðskiptanefnd. Ég ætla ekki að segja það hér og nú hverjir helstu gallarnir eru á henni, en ég hef á stórum hluta ævi minnar hvatt mjög til þess að fólki sé gert kleift að spara án þess að sá sparnaður verði tekinn eignarnámi eftir ýmsum leiðum. Þetta er leið til þess. Ég vænti þess að alla vega sá hluti í þessari úrlausn skuldavanda heimila fái skaplega úrlausn á þingi.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu.