143. löggjafarþing — 90. fundur,  2. apr. 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[21:00]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég hefði viljað hlusta lengur, verð ég að segja alveg eins og er, hv. þingmaður hefur ýmislegt fram að færa í þessum efnum.

Hv. þingmaður talaði um hinn svokallað forsendubrest sem ég hef oft kallað eftir sjálfur eða spurt hvað nákvæmlega er átt við með. Svarið sem ég hef fengið er hann sé verðbólguskotið sem varð í kjölfar hrunsins 2008. Það kom mér sjálfum aldrei neitt ægilega á óvart að hér kæmu verðbólguskot af og til.

Ég velti fyrir mér hvað hv. þingmanni finnist um að í stað þess að leggja fé í lífeyrissjóð fari peningarnir í eign, með hliðsjón af því hvernig efnahagur Íslands er yfir langt tímabil, hvort það sé kannski skynsamlegra að spara, að í stað þess að spara í lífeyrissjóð sé lagt fé beint inn á bók eða beint inn á húsnæðislán?