143. löggjafarþing — 90. fundur,  2. apr. 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[21:50]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég þakka fyrir umræðuna. Henni er nú að ljúka sýnist mér og málið gengur til efnahags- og viðskiptanefndar sem fær hér töluvert efni til að fjalla um með frumvarpinu og greinargerð og þeim ábendingum öllum sem hafa fram komið í umræðunni.

Almennt um þessa aðgerð vil ég segja að þetta er, eftir aðrar leiðir sem menn hafa horft til að byggja á og snerta séreignarsparnaðinn, útfærsla sem er sérstaklega miðuð að því að séreignarsparnaðurinn nýtist við að lækka húsnæðisskuldir. Við höfum á undanförnum árum opnað fyrir úttöku á uppsöfnuðum séreignarsparnaði til að létta greiðslubyrði fólks, gefa fólki kost á því að taka út uppsafnaðan séreignarsparnað. Þar höfum við svo sannarlega ekki farið í það að gera mikinn greinarmun á þeim sem hafa hærri tekjurnar eða lægri. Við höfum vissulega sett ákveðið þak á hámarksúttekt en við höfum beitt þessu sparnaðarúrræði, séreignarsparnaðinum, til að létta undir með fólki. Sú úttekt hefur verið skattskyld en á móti hefur komið að fólk hefur haft það sem losnar á þann hátt algjörlega til frjálsrar ráðstöfunar.

Í þessu úrræði erum við að fella skattskylduna niður. Við hámörkum úttektina á hverju ári, eða það sem upp safnast á hverju ári, eins og fram hefur komið. Við erum ekki að tala um það sem er þegar í sjóði, við erum að tala um það sem verður lagt fyrir á þriggja ára tímabili frá 1. júlí í sumar og að hámarki geti fólk notað 500 þús. kr. á ári skattfrjálst til að ráðstafa inn á húsnæðislánin. Sá munur er á þessari aðgerð og sérstöku vaxtabótunum, sem hafa komið í umræðuna í dag og kvöld, að sérstöku vaxtabæturnar gengu beint til fjölskyldnanna, til einstaklinganna sem áttu rétt á sérstökum vaxtabótum og jafnvel þótt þær væru miðaðar við það að skuldastaða heimilanna væri slæm og væru kannski sérstaklega hugsaðar vegna húsnæðislána, þá voru þær til frjálsrar ráðstöfunar. Ég lít á það sem sérstakan kost við þessa aðgerð að útgreiðsla séreignarsparnaðarins er ekki til frjálsrar ráðstöfunar. Skattfrelsið er eingöngu ef upphæðinni er ráðstafað til uppgreiðslu á þeirri tilteknu skuld. Þetta er ekki skattfrelsi til þess að auka beint ráðstöfunartekjurnar í hvaða tilgangi sem er, heldur eingöngu ef því tiltekna markmiði er náð að úttektin gangi inn á húsnæðislánið.

Það er þó ekki sérstakt skilyrði að viðkomandi hafi fyrst greitt af húsnæðisláninu sínu, það er ekki sérstakt skilyrði, en það er út frá því gengið almennt í þeim forsendum sem lagðar hafa verið fram að þetta úrræði geti gagnast til viðbótar við þær afborganir sem fólk gerir ráð fyrir til að lækka greiðslubyrðina yfir tímabil. Útgreiðslan mun eiga sér stað ársfjórðungslega, þetta er ekki útgreiðsla sem kemur í hverjum mánuði, líkt og fólk er vant að þurfa að standa skil á mánaðarlegum afborgunum. Skattfrelsið mun auk þess geta nýst fólki, eins og við höfum verið að ræða í dag og í kvöld, til að kaupa fyrstu fasteign. Ég vil sérstaklega lýsa ánægju minni með það. Mér heyrist að almennt góð sátt sé um það í þinginu að það sé skynsamleg ráðstöfun núna að stíga það skref að fólk geti fengið hvata til þess að leggja til hliðar fyrir fasteignakaupum. Þessi úrræði geta blandast saman á tímabilinu. Ef viðkomandi á ekki fasteign í upphafi tímabilsins safnar hann rétti til að kaupa eign síðar og ef hann kaupir fasteign á tímabilinu byrjar hann að eignast rétt til þess að beita séreignarsparnaði til greiðslu á láni vegna þeirrar fasteignar.

Það er eitt atriði sem mér finnst skipta máli sem lítið hefur verið í umræðunni, þ.e. að þessu úrræði hér er hægt að beina inn á lánið, enda uppfylli það þær kröfur sem fram koma í frumvarpinu að vera tækt til þess að vera grunnur vaxtabóta. Í því sambandi skiptir sem sagt ekki máli, ólíkt því sem á við um niðurfærsluna, að það lán hafi verið til staðar og verið verðtryggt á árunum 2008 og 2009. Þetta úrræði er ólíkt því sem gildir um niðurfærslu höfuðstóls fasteignalána, og þar sem skilyrðið er sérstaklega að til staðar hafi verið verðtryggt lán á árinu 2008 og 2009 er hægt að nýta þetta úrræði til að greiða hvers kyns lán, sama hvenær það var tekið, sama hvort það var verðtryggt, óverðtryggt, gengislán, gengislán á einhverjum tíma sem núna hefur verið breytt yfir í verðtryggt lán, það skiptir engu máli. Svo lengi sem það er grundvöllur vaxtabóta er hægt að beina þessum sparnaði inn á lánið.

Þetta skiptir töluvert miklu máli af því að þetta er að því leytinu til frábrugðið hinu úrræðinu og getur þess vegna gagnast stærri hóp fólks. Vera kann þegar úrræðin eru skoðuð saman, það úrræði sem við erum að ræða hér í dag og það úrræði sem við verðum með til umræðu á mánudaginn, að sumir muni eingöngu nýta sér þennan þáttinn, enda hafi þeir mögulega ekki verið með verðtryggt lán á árunum 2008 og 2009, það kann að vera.

Ég hef að sjálfsögðu tekið eftir umræðunni í dag sem hefur snúið að tekjulægri fjölskyldum. Ég vek athygli á bls. 16 í frumvarpinu þar sem í greinargerð er verið að fjalla um kennitölur úr skattframtölum fyrir tekjuárið 2012. Þar sjáum við að af þeim fjölskyldum sem eiga fasteign og skulda eru rúmlega ¾, þ.e. rúmlega 75%, sem spara í séreign tekjuárið 2012. Það eru rúmlega ¾ sem eiga fasteign og skulda, spara í séreign. Það er innan við ¼ sem á fasteign og skuldar en sparar ekki í séreign. Og það er til að styrkja málstað þeirra sem segja að það séu frekar tekjulægri sem ekki leggja fyrir í séreignarsparnað, að tölurnar sýna að tekjur þeirra sem leggja ekki fyrir í séreignarsparnað en eiga fasteign og skulda, að tekjur þeirra eru almennt eitthvað lægri.

Við gerum ráð fyrir að með skattalega hagræðinu sem fæst af því að taka þátt í þessari leið muni opnast leið fyrir það fólk, leið muni opnast. Það muni verða sérstakur hvati fyrir það til að nýta úrræðið. Þá erum við með þá stöðu að fyrir liggur frá upphafi að ¾ eru þegar að nýta úrræðið og meira að segja rúmlega það, fyrir hina kemur þessi skattalegi hvati til viðbótar. Það þarf varla mikinn viðbótarhvata fyrir þá sem þegar spara að halda því áfram, en fyrir hina kemur sá skattalegi hvati til þess að grípa úrræðið.

Rætt hefur verið um tekjutap ríkisins. Ég vænti þess að það komi til sérstakrar skoðunar í nefndinni að leggja mat á það. Þær tölur liggja fyrir í frumvarpinu frá skrifstofu opinberra fjármála í fjármála- og efnahagsráðuneytinu og í greinargerð með frumvarpinu er lagt mat á tekjutap ríkisins fyrir bæði ríki og sveitarfélög. Þetta er tekjutap sem mundi hafa komið fram yfir mjög langan tíma eða er verið að áætla inn í langa framtíð. Fram kemur að á móti þarf að gera ráð fyrir að aukin umsvif í efnahagslífinu, Seðlabankinn hefur til dæmis gert ráð fyrir að einkaneyslan vaxi eitthvað, komi til með að skila tekjum á móti. Erfitt er að festa hendur á nákvæmum tölum í því efni. En aðalatriðið er auðvitað það að við teljum það svo mikilvægt sjálfstætt markmið, þ.e. að taka á skuldavanda heimilanna og gefa fólki valkost um að spara með þessum hætti en ekki með þeim að leggja inn í séreignarsparnaðinn til framtíðarinnar og úttektar á efri árum, að réttlætanlegt sé að sjá á eftir skatttekjum, þó að þær séu af þeirri stærðargráðu sem er verið að ræða um hér, vegna þess að þær fjárhæðir verða í staðinn eftir hjá heimilunum í auknum sparnaði í öðru formi. Það mun hafa til langs tíma jákvæð áhrif.

Í þessu samhengi vísa ég sérstaklega til þess hversu hátt skuldahlutfall íslenskra heimila er í sögulegu samhengi og alþjóðlegu reyndar líka. Það verður ekki unnið á þeirri stöðu á einu ári eða með einni afmarkaðri aðgerð. En þessar aðgerðir, sú sem við erum að ræða hér og höfuðstólslækkunin sem er í öðru frumvarpi, bætast við aðrar þær aðgerðir sem hafa komið til framkvæmda á undanförnum árum, og saman tel ég að við séum að stíga með þeim tveimur aðgerðum lokaskrefið í því að taka á þeim vanda sem safnaðist upp þegar hin mikla verðbólga skall á í kjölfar falls krónunnar.

Út af fyrir sig er hægt að taka undir með mönnum sem hafa tekið til máls í dag og bent á að margir hafi séð eignaverðið hækka og séu kannski ekki í stórkostlegu tapi með fjárfestingar sínar, en þetta er almenn aðgerð. Hún horfir til þess að hér hafi orðið efnahagslegt áfall sem enginn hafi gert ráð fyrir og sú leið að fara í mjög sértækar aðgerðir til lausnar á slíkum vanda getur verið mjög tafsöm og það sjáum við m.a. af reynslu undanfarinna ára að myndast geta langar biðraðir, setja þarf á fót sérstakar stofnanir til að eiga við slík mál. Við höfum verið með umboðsmann skuldara sem hefur verið á fjárlögum núna ár eftir ár og var þegar mest var með um 1 milljarð í fjárheimildir til að sinna þeim verkefnum sem þeirri stofnun var falið. Við þekkjum það hvernig þetta mál var enn á dagskrá tæpum fimm árum eftir fall bankanna í kosningunum síðasta vor, sem var skýrt merki um það að málið var enn þá óleyst. Það var enginn flokkur sem talaði fyrir öðru en að þetta væri alvöruvandamál sem þyrfti að taka á. Það er eðlilegt að við séum hérna í þinginu að takast á um það hvernig eigi að taka á því. Sumum finnst of mikið gert, öðrum finnst eflaust of lítið gert eða gera mætti þetta með einhverjum öðrum hætti.

Í þessu tiltekna máli erum við ekki að gera annað en það að segja við fólk: Við viljum opna fyrir það að sparnaði ykkar sé ráðstafað inn á lán sem tekin voru til öflunar á eigin húsnæði. Við erum ekki að greiða þetta út til frjálsrar ráðstöfunar. Við erum einfaldlega að gefa fólki valfrelsi og styðja við uppgreiðslu á skuldum, lækka skuldastöðu heimilanna með sérstökum skattafslætti. Ég tel að þetta sé mjög jákvætt mál fyrir efnahagslífið, fyrir heimilin. Þetta er almenn aðgerð.

Ég er ekki sammála því sem margir segja að hún sé sérstaklega ívilnandi fyrir þá sem er með hærri tekjurnar. Það eru einmitt þeir sem geta lent í skerðingunum, þeir sem eru með lægri tekjurnar fá að njóta úrræðisins að fullu ef við erum sammála um það. Úrræðið gengur út á það að geta notað allt að 6% af heildarlaunum til uppgreiðslu á lánum. Ef menn líta þannig á að úrræðið snúist um að geta notað allt að 500 þús. kr., þá er hægt að leiða fram þá niðurstöðu að þeir sem ekki ná upp í 500 þús. kr. á ári í sparnað sitji einhvern veginn eftir. En staðreyndin er sú að þeir hafa að fullu fengið það hlutfall launa sinna sem ella hefði gengið inn á sparnaðinn, skattfrjálst í þessum tilgangi. (Forseti hringir.)

Ég hef þá lokið máli mínu og ítreka þakkir fyrir ágætlega málefnalega umræðu og vænti þess að málið gangi til nefndar og 2. umr.