143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

aðferðir við hvalveiðar.

[15:22]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Þrátt fyrir að ekki séu skráðar upplýsingar, eins og fram kemur í svarinu sem hv. þingmaður vitnaði til, þá eru þær aðferðir sem hér eru notaðar sambærilegar við þær sem til að mynda eru notaðar í Noregi. Til þess að sannreyna að nákvæmlega eins aðstæður séu uppi hér og þar var einmitt það verkefni sem hv. þingmaður vitnaði til sett á laggirnar og ég hef ekki aðrar upplýsingar en þær að til standi að vinna það í sumar, ég vænti þess. Ef það frestast af einhverjum óljósum ástæðum sem ég þekki ekki til núna, ég veit ekki til annars en að þetta verði gert, þá skal ég koma þeim upplýsingum til hv. þingmanns.

Þessar veiðar okkar eru gerðar með eins mannúðlegum hætti og hægt er, ólíkt margs konar öðru hvaladrápi þar sem ýmsar stórþjóðir hafa til að mynda verið að veiða alls konar hvalategundir sem meðafla og þeim er síðan hent. Það er auðvitað ekki sjálfbærni, það er ekki gert á mannúðlegan hátt þar sem hvalirnir drepast í netum túnfiskveiðimanna og annarra.

Þessar veiðar okkar eru gerðar eins mannúðlega og hægt er og mér finnst mjög gott að það skuli vera mjög ríkur vilji hjá Íslendingum og að það skuli vera skoðun þeirra að hvalir skuli veiddir á eins mannúðlegan hátt og hægt er eins og aðrar skepnur sem við aflífum til þess að búa til mat fyrir mannkynið.