143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[17:34]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil nota tækifærið og þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu, hún var mjög hófstillt og málefnaleg, en hún er með margvíslegar athugasemdir við málið. Ég er að reyna að átta mig á því hver afstaða hv. þingmanns er til málsins.

Af því hv. þingmaður nefndi að ekki væri komin stefna varðandi húsnæðismálin almennt og vísaði í að ekki væri verið að skoða leigumarkaðinn neitt vil ég nota tækifærið og upplýsa hv. þingmann um að þarna er ákveðinn misskilningur á ferðinni. Stór hluti þeirrar vinnu sem hefur farið fram, bæði í verkefnisstjórninni og í undirhópum, hefur farið í það sem snýr að leigumarkaðnum, hann er því alls ekki undanskilinn. Sama gildir um það sem snýr að húsnæðismálum og húseignum á þeim svæðum sem ekki er auðvelt að fá lán fyrir eða fjármálastofnanir og aðrir hafa ekki viljað lána fyrir. Það er því misskilningur ekki sé verið að ræða það, því fer víðs fjarri. Stór hluti vinnunnar hefur farið í þetta og það munu koma tillögur sem tengjast því.

Ef ég skil hv. þingmann rétt er hún á móti því að veita einhvers konar fyrirgreiðslu, aðstoð, til tekjuhárra. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort það sé réttur skilningur hjá mér. Við vitum að það varð mikið áfall sem kom niður á flestum þjóðfélagshópum, m.a. fólki á öllum aldri sem var að kaupa sér húsnæði og var með meðaltekjur og yfir. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort það sé rétt skilið hjá mér að hún sé algjörlega á móti því að reynt að létta undir með því fólki?