143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[22:14]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Brynhildi S. Björnsdóttur fyrir ágætisræðu. Hv. þingmanni var tíðrætt um dreifingu gæða. Það er hárrétt að ef við horfum á hagkerfið og efnahagshringrásina erum við með tvær grundvallarstoðir í hagkerfi sem eru fyrirtæki annars vegar og heimili hins vegar, ríkið er síðan með hlutverk, meðal annars að deila gæðum eða endurdreifa gæðum skulum við orða það frekar.

Mig langar í framhaldi af því að koma inn á stöðu heimilanna. Skuldsetning heimila er 108% af vergri landsframleiðslu, þ.e. við streðum á heilu ári við að skapa verðmæti í hagkerfinu og skuldir heimilanna eru 8% umfram þau verðmæti. Það heftir vissulega getu heimilanna til að vera öflugir og virkir þátttakendur í efnahagshringrás enda eru ýmsar tölur, eins og neysla og eftirspurn almennt eftir vöru og þjónustu, í sögulegu lágmarki.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort henni finnist í því samhengi ósanngjarnt að efla efnahag íslenskra heimila.