143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

skýrsla Alþjóðamálastofnunar um aðildarviðræður við ESB.

[14:06]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi máls míns þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir að taka hratt og vel undir þá bón mína að ræða í þingsal nýútkomna skýrslu Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands um stöðu aðildarviðræðna við Evrópusambandið. Það skiptir miklu að við ræðum ítarlega þær bestu fáanlegu upplýsingar sem hægt er að fá um það mikilvæga hagsmunamál.

Það var ámælisvert af hálfu ríkisstjórnarinnar að hrökkva til fyrr í vetur með tillögu um að draga til baka aðildarumsókn án þess að gefist hefði færi á því að skoða allar upplýsingar sem háskólastofnanir höfðu fram að færa í því efni. Það er mikilvægt að við nýtum nú öll tækifæri til þess að leggja traustan grunn undir vitræna og upplýsta umræðu um Evrópumál á næstu missirum.

Virðulegi forseti. Í þessari nýútkomnu skýrslu er að finna ítarlega greiningu á stöðunni um mikilsverðustu þætti aðildarviðræðnanna. Hún sýnir vönduð vinnubrögð og fer yfir þá þætti sem okkur skipta mestu og okkur skorti ítarlegri umfjöllun um eftir þá skýrslu sem fyrir liggur frá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands.

Að því er varðar EES-samninginn rekur skýrslan innleiðingarhallann sem við er að glíma, sem er auðvitað að stórum hluta til vegna stjórnskipulegra vandkvæða okkar á því að standa við EES-samninginn. Á þeim vandkvæðum hefur ríkisstjórnin enga lausn fundið en hefur í nýrri Evrópustefnu lofað að hraða innleiðingu og hlýða Brussel hraðar og betur en nokkur önnur ríkisstjórn frá því að EES-samningurinn var gerður.

Í sjávarútvegsmálum er lögð fram ítarleg lögfræðileg greining á forsendum fyrir því að Ísland eigi að geta haldið forræði á úthlutun fiskveiðiheimilda í íslenskri lögsögu innan ramma hinnar sameiginlegu sjávarútvegsstefnu. Í landbúnaðarmálum er hægt að sjá að hægt er að finna lausn í þágu íslenskra hagsmuna og að aðild að Evrópusambandinu feli í reynd í sér besta tækifærið til að breyta þeirri kostnaðarsömu tollvernd sem við búum við nú á Íslandi í beinan stuðning við framleiðendur, samhliða því sem við fáum aðgang að öðrum mörkuðum þannig að við getum gert hvort tveggja í senn, tryggt afkomu bænda og opnað íslenskri landbúnaðarframleiðslu nýja markaði.

Þetta er nákvæmlega það sem hæstv. fjármálaráðherra sagðist vilja gera í breytingum á tollvernd vegna landbúnaðarvara í umræðu í þinginu fyrir nokkrum dögum og alveg ljóst að í aðild að Evrópusambandinu hvað þetta varðar felast mestu tækifærin fyrir íslenskan landbúnað.

Stóru tíðindin eru svo í umfjöllun um peningamálin. Það er skýrt greint frá því í skýrslunni hvernig aðild að Evrópusambandinu og fyrirheit um upptöku evru muni greiða fyrir afnámi hafta og útfært í nokkrum smáatriðum hvernig hægt sé að nýta þá aðstöðu að þjóðin sé á leiðinni í Evrópusambandið, upptaka evru sé innan fyrirsjáanlegrar framtíðar til að losna við snjóhengju og koma gjaldeyrisviðskiptum við önnur lönd í eðlilegt horf.

Það hefur ekki áður verið gert á jafn skýran hátt.

Það er líka skýrt tekið fram hvernig hægt er að draga úr áhættu þjóðarinnar á fjármálaáföllum og fjármagnsflutningum í framtíðinni. Það kemur líka fram að aðild að evru er ekki fjarlægur möguleiki eftir mjög langan tíma. Þvert á móti má búast við að ef við settum okkur það markmið gætum við tekið upp evru mjög fljótt eftir aðild að Evrópusambandinu.

Hæstv. fjármálaráðherra sagði í gær og ég vil taka undir með hæstv. ráðherra: Það er ekkert svart og hvítt í þessum heimi. Það er ekki þannig að öll mál séu leyst með því að taka upp krónuna eða öll mál verði leyst með því að taka upp evru eða einhvern annan gjaldmiðil. Það verður að vera hægt að taka þessa umræðu af einhverri yfirvegun. Ég er sammála hæstv. ráðherra. Það er mjög mikilvægt en þá verðum við líka að geta rætt um þá stefnu sem við erum að taka. Vandinn sem við er að glíma í dag er að ríkisstjórnin hefur ekki markað trúverðugan valkost í peningamálastefnu þó að af hálfu fjármálaráðherrans hafi verið slegnir tónar um aukinn aga í ríkisrekstri.

Um helgina sagði hæstv. ráðherra: Valkostirnir eru aðeins tveir, sagði hann á flokksfundi, annaðhvort að taka kreppu út í gegnum gjaldmiðilinn eða í gegnum vinnumarkaðinn. Þetta skulum við hafa í huga.

Sú kenning er alveg rétt svo langt sem hún nær, að það muni kosta meira atvinnuleysi að vera með fast gengi, en það er líka vel rakið í þessari skýrslu hver herkostnaður samfélagsins er af því að leysa vandamál með gengisfellingum og hversu takmarkaða möguleika við höfum raunverulega til að gera það þegar á hólminn er komið.

Samkvæmt skýrslu Seðlabankans um valkosti í peningamálum fyrir tveimur árum kom fram sú greining að krónan væri í eðli sínu ekki sveiflujafnandi, hún væri sveifluvekjandi. Fjármagnsflæðið inn og út úr landinu hefði áhrif á gengi krónunnar og öll höft sem við höfum komið á áratugum saman hafa verið viðbragð við krónunni, viðbragð við sveiflum í gengi hennar. Uppspretta erfiðleika í íslensku efnahagslífi undanfarna áratugi hefur ekki verið, í flestum tilvikum, af ytri áföllum heldur vegna veikrar hagstjórnar þar sem krónan hefur gefið stjórnmálamönnum færi á að lækka laun almennings til að losa sjálfa sig út úr mistökum eftir á.

Ef við hefðum ekki sett á höft í hruninu 2008 hefði krónan fallið enn meira, vextir hefðu þá þurft að hækka enn meira, enn meiri skuldavandi heimila hefði blasað við og enn meira atvinnuleysi og enn hraðari niðurskurður ríkisútgjalda. Það er því ekki þannig að krónan hafi bjargað okkur 2008, það voru gjaldeyrishöftin sem stöðvuðu hið hrikalega hrun krónunnar og gerðu okkur mögulegt að ná tökum á ástandinu.

Nú hefur ríkisstjórnin hins vegar enga skýra leið út úr þeim sömu gjaldeyrishöftum. Í skýrslunni er rakið mikilvægi gjaldgengs gjaldmiðils fyrir fólk og fyrirtæki, gengisbreytingar og háir vextir skapi vandræði og það sé gríðarlegur ávinningur af fastgengi og það eru dregin fram söguleg dæmi um það hvernig okkur hefur best gengið að hafa stjórn á okkar málum þegar okkur hefur tekist að taka ákvörðun um það sjálf að halda gengi stöðugu.

Fólk og fyrirtæki á Íslandi sætta sig ekki lengur við afleiðingar þeirrar stefnu að fella gengið til að takast á við efnahagslega erfiðleika. Við sjáum það í því óþoli sem einkennir núna viðbrögð fólks við skuldavandanum. Það er þess vegna nokkuð sérstakt að sjá hæstv. fjármálaráðherra bera lof á krónuna í sömu andrá og hann leggur hér fram frumvarp um fordæmalausa fjármagnstilflutninga milli þjóðfélagshópa til að takast á við hrun þeirrar sömu krónu.

Á sama tíma er svo fjármálaráðherra að leggja fram frumvarp um opinber fjármál og setja á okkur meiri skyldur og strangari en fylgja Maastricht-skilyrðunum. Þar af leiðandi er sérkennilegt að hann markar stefnu um verðstöðugleika en hann vill ekki byggja okkur umgjörðina sem gerir okkur auðveldara að halda í þann verðstöðugleika, þann stöðugleika í gengi sem mun geta skipt miklu máli fyrir afkomu íslenskrar þjóðar.

Virðulegi forseti. Það góða við að eiga orðastað við hæstv. fjármálaráðherra er að hann hefur verið með ólíka afstöðu til þessara mála á undanförnum árum og því er hægt að vitna í önnur ummæli hans sem ég er meira sammála.

2008 sagði hæstv. ráðherra í blaðagrein:

„Með upptöku nýs gjaldmiðils verða ekki öll hagstjórnarvandamál okkar leyst, langur vegur er þar í frá. Það er sanni nær að í slíkri ákvörðun felist að setja stöðugleikann í forgang og sætta sig við að geta ekki mætt sveiflum í hagkerfinu með aðlögun gengisins.“

Ég held að hæstv. fjármálaráðherra hafi í desember 2008 algjörlega hitt naglann á höfuðið. Ég held að atvinnulífið í landinu sé sammála þessari greiningu og ég held að fólkið í landinu sé sammála þessari greiningu og nákvæmlega þess vegna sjáum við óþolið gagnvart skuldavandanum og öllum hinum neikvæðu afleiðingum hinnar íslensku krónu á undanförnum árum.

Samkvæmt skýrslu Seðlabankans fyrir tveimur árum sem ég vitnaði til áðan eru tveir kostir Íslendingum færir í gjaldmiðilsmálum. Það er upptaka evru í gegnum aðild að Evrópusambandinu eða áframhaldandi rekstur íslenskrar krónu. Ríkisstjórnin hefur hlaupið til með eindreginn ásetning til að loka annarri leiðinni án þess að ráða við að útfæra hina.

Ríkisstjórnin hefur ekki útfært með trúverðugum hætti umgjörð utan um íslenska krónu sem getur leyft okkur að afnema höft. Það liggur fyrir að Seðlabankinn og fjármálaráðuneytið telur þurfa alls konar langtímahöft í landinu til að við getum lifað áfram við íslenska krónu og þau höft eru ekki samrýmanleg EES-samningnum óbreyttum. Og þetta gerist þótt landsfundur Sjálfstæðisflokksins hafi, sá síðasti, samþykkt ályktun um að krónan væri ekki framtíðargjaldmiðill þjóðarinnar.

Virðulegi forseti. Ég held að við þurfum í ljósi þessarar skýrslu að hefja alvöruumræðu um framtíðarstefnu okkar í Evrópumálum. Hún hlýtur að vera tilefni til að ríkisstjórnin endurmeti afstöðu sína til áframhalds aðildarviðræðna, falli frá áformum um að draga aðildarumsókn (Forseti hringir.) til baka og taki þátt í vinnu við að efna það fyrirheit sem hún sjálf gaf og hæstv. fjármálaráðherra sérstaklega, að þjóðin fái að greiða atkvæði um hvort haldið verði áfram með aðildarumsóknina á þessu kjörtímabili.