143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

skýrsla Alþjóðamálastofnunar um aðildarviðræður við ESB.

[14:27]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Páli Árnasyni málshefjanda og hæstv. ráðherra fyrir viðbrögð hans og svör í ágætri umræðu. Ég tel jákvætt að fá fram skýrslu Alþjóðamálastofnunar inn í þá umræðu sem nú stendur yfir þó að segja megi að ég sakni sömu þátta í þeirri skýrslu og ég sakna í skýrslu Hagfræðistofnunar. Kannski má leita skýringa í því sem fram kemur í upphafi þessarar skýrslu, að að hluta til hafi verið byggt ofan á skýrslu Hagfræðistofnunar, þ.e. að hluta til byggja þeir ofan á því sem þar kemur fram. Hvorug skýrslan tekur í raun á samfélagsþróun innan Evrópusambandsins, hvorug skýrslan tekur á hinum félagslegu og pólitísku þáttum. Í hvorugri skýrslunni er fjallað um stærsta viðfangsefni samtímans út frá Íslandi og Evrópusambandinu sem eru auðvitað umhverfismálin og loftslagsmálin. Ég sakna þess enn að við fáum breiðari umræðu um Evrópusambandið. Það er hárrétt sem hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra segir hér, að það að ákveða að gerast aðili að Evrópusambandinu er miklu stærri spurning en eingöngu efnahagsleg. Oft hafa efnahagslegu rökin verið í forgrunni, þau voru það til að mynda í kringum það þegar kreppan skall á Íslandi og hlutirnir gengu þá betur innan Evrópusambandsins. Það má segja að efnahagslegu rökin hafi líka verið í forgrunni þegar verr fór að ganga innan Evrópusambandsins og það var nýtt í umræðunni.

Þetta er mun stærri ákvörðun. Því hefur verið haldið fram af fræðimönnum að þegar þjóðir sem hafa gerst aðilar að Evrópusambandinu fá samning í hendur og fólk þarf að taka ákvörðun um hvort það segir já eða nei, þótt það hafi í raun og veru öll þessi gögn fyrir framan sig ráði fyrst og fremst hin pólitíska sjálfsmynd ákvörðuninni, hvort fólk sé reiðubúið að taka þátt í þessu samstarfi og öllu því sem því fylgir. Þó að þarna sé ágætisumfjöllun að mörgu leyti, bæði um efnahagsmál, EES-samninginn, sjávarútveg og landbúnað, hefði ég viljað sjá breiðari umfjöllun.

Það er athyglisvert að þarna kemur fram að viðræðurnar voru komnar lengra en hefur verið látið í skína í umræðum hér um málið. Mér finnst það mikilvægur þáttur. Mér finnst líka mikilvægt, það lá auðvitað fyrir í upphafi að aðildarviðræður hafa tekið lengri tíma eftir stækkun Evrópusambandsins og breyttar forsendur þar og það kom fram á sínum tíma í nefndaráliti meiri hluta utanríkismálanefndar en það má greina að viðræðunum miðaði ágætlega.

Það er líka athyglisvert að lesa að grundvallarmunur er á því að gera formlegt hlé á aðildarviðræðum eða draga umsókn til baka. Tillaga hæstv. ríkisstjórnar um að draga umsóknina til baka hefur það í för með sér að þá þarf að leita á ný samþykkis allra aðildarríkja og fara í algjörlega í nýtt ferli ef áhugi verður á því að hefja aftur viðræður einhvern tímann síðar.

Þessi skýrsla mun bæta einhverju við umræðuna og skiptir máli að hún verði tekin fyrir núna í hv. utanríkismálanefnd og skoðuð í samhengi við önnur gögn, skýrslu Hagfræðistofnunar. Ég tel að þessi skýrsla dragi mjög vel fram þann mun sem er á þessum tveimur leiðum. Ég minni á tillögu okkar, hv. þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, sem ég tel skynsamlega leið í núverandi stöðu, þ.e. að hinu formlega hléi verði fram haldið en haldin verði þjóðaratkvæðagreiðsla um málið og leitað leiðsagnar þjóðarinnar um það hvernig haldið skuli áfram.

Mat okkar er eftir þá pólitísku umræðu sem verið hefur um þetta mál mörg undanfarin ár og áratugi að rétt sé að það verði leitt til lykta með lýðræðislegum hætti og það var mat okkar margra og rökstuðningur okkar fyrir því þegar sótt var um aðild. Það er mat okkar allra, þingmanna flokksins, að leita skuli leiðsagnar þjóðarinnar í þessu máli, hvernig við ætlum að halda á því áfram.

Það er mjög mikilvægt hins vegar í áframhaldandi pólitískri umræðu að við breikkum hana og ræðum fleiri þætti en þá sem eru til umræðu í þessum skýrslum. Mér finnst líka mikilvægt — og þó að tími minn sé liðinn — þegar við ræðum (Forseti hringir.) hin stóru efnahagslegu viðfangsefni, eins og afnám hafta sem talsverð umfjöllun er um hér, minni ég enn og aftur á að þau þarf að leysa í pólitísku samráði.