143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

skýrsla Alþjóðamálastofnunar um aðildarviðræður við ESB.

[14:59]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra sérstaklega fyrir að bregðast svona vel við beiðninni um umræðuna og þakka fyrir umræðuna. Ég vil líka fagna skýrslu Alþjóðamálastofnunar sem mér þykir mjög góð að mörgu leyti og mikilvægt innlegg í umræðuna. Skýrslan hefur að mörgu leyti styrkt mig í þeirri skoðun að, eins og hv. þm. Birgitta Jónsdóttir orðaði það, við getum talað okkur rauð og blá í framan og haldið ýmsu fram en við munum ekki vita hvað felst í því fyrir Ísland að ganga í Evrópusambandið öðruvísi en að klára viðræðurnar og taka vitræna umræðu um það sem er á borðinu, en ekki tilfinningar okkar um hvað kunni að vera þar.

Það sem mér finnst einkum ánægjulegt í skýrslu Alþjóðamálastofnunar háskólans er að þar er gerð tilraun til að, kannski ekki að taka djúpt og endanlegt hagsmunamat á möguleikum Íslands við inngöngu í Evrópusambandið en það er verið að gera góða atlögu að því að máta Ísland að ýmsum þáttum Evrópusamstarfsins og þá sérstaklega myntsamstarfsins, landbúnaðarmálunum og sjávarútvegsmálunum sem skipta okkur mjög miklu máli. Þetta er umræða sem ég hef saknað í umræðunni um Evrópusambandið. Mér líður oft eins og ég sé í bókaklúbb og það komi inn endalausar bækur og síðan sé ég í mikilli umræðu um kápurnar en bækurnar eru aldrei opnaðar. Það er mikil umræða um það hvort Ísland þurfi að gangast undir sameiginlega sjávarútvegsstefnu Evrópu eða hvort Ísland geti fengið algera undanþágu undan þeirri sjávarútvegsstefnu en ég sakna þess að við eigum djúpa umræðu um hver sjávarútvegsstefna Evrópu er og hvernig hún tengist okkur. Umræðan er dálítið á bókakápuplaninu hjá okkur, því miður.

Umræðan um skýrslur og upplýsingar sem við höfum fengið er því miður sömuleiðis allt of mikið því marki brennd að við efumst um hvaðan upplýsingarnar koma, við efumst um heilindi þeirra fræðimanna sem standa á bak við skýrslurnar. Ég hélt einhvern veginn að hugsunarhátturinn sem var árin fyrir hrun, þar sem það var mikið í tísku að ekki væri að marka neitt nema það sem þeir sögðu sem voru fullkomlega sammála manni, hefði ekki reynst okkur sérstaklega vel. Mér þykir hálfsorglegt að upplifa þá tilfinningu aftur að boltinn sé gleymdur á meðan við hlaupum á eftir mönnunum, svo notað sé líkingamál.

Mér þótti mjög góður kaflinn um sjávarútvegsmál í þessari nýju skýrslu þar sem teknir eru punktar úr sameiginlegri sjávarútvegsstefnu Evrópu, samanber sjálfstæð fiskveiðistjórnarsvæði innan 12 mílna, meginreglur um hlutfallslegan stöðugleika innan lögsögu sem byggir á veiðireynslu o.s.frv., sem í raun og veru útilokar að mörgu leyti erlend skip úr íslenskri lögsögu án undanþágna, án þess að við þurfum undanþágu frá sjávarútvegsstefnunni eða sérlausnir. Mér þykir vanta meira af þessari grunnumræðu. Hún hefur eflaust farið fram djúpt inni í stjórnmálaflokkunum einhvers staðar (Forseti hringir.) og í höfðum okkar margra en ég held að almenningur, og alla vega ég, hafi farið á mis við mikið af þeirri umræðu. Ég held að við eigum að dýpka okkur.