143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[15:43]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra Bjarna Benediktssyni fyrir að koma í ræðustól Alþingis í stuttu andsvari við mig og svara þeim þremur spurningum sem ég hef spurt. Í fyrra andsvari hefur tveimur spurningum verið svarað. Spurning mín um afnám verðtryggingar á eldri lán er eftir, afnám sem Framsóknarflokkurinn hefur boðað að sé algjör forsenda fyrir skuldaleiðréttingunni. Ég vænti þess að hæstv. fjármálaráðherra svari henni í seinna andsvari.

Ég vil þakka honum fyrir þá skýringu sem hann gaf á því sem ég spurði um fyrst, þ.e. hvaða lán falli undir skuldbreytingar fyrri ára út af ákveðnum þáttum sem ég nefndi. Mér fannst það koma alveg skýrt hér fram að þau verða ekki dregin frá. Við skulum hafa í huga, virðulegi forseti, að frumvörp og greinargerð og skýringar með einstökum greinum frumvarpa svo og ræður þingmanna og ráðherra og greinargerðir frá nefndum eru allt saman lögskýringargögn. Og hér höfum við það svart á hvítu að þær skuldir sem voru í ákveðnum reitum skattframtals á árunum 2008, 2009 vegna skattframtals 2009 og 2010 eru fullkomlega teknar inn, hafi þær verið teknar til vaxtabóta eða myndað grunn til vaxtabóta áður. Það er alveg klárt.

Ég þakka jafnframt hæstv. ráðherra fyrir að svara því að það séu til gögn um hvernig þetta skiptist milli landshluta, milli kjördæma, vegna þess að mér finnst það mjög mikilvægt. Ég mun beina því til flokksbróður míns sem situr í efnahags- og viðskiptanefnd að óska eftir því frá sérfræðingahópnum og ráðuneytinu að þessi gögn verði birt. Ég trúi því að auðvelt sé að keyra þau út úr þeim mikla töflu- og gagnabanka sem orðið hefur til í þessari vinnu.

Þá segi ég, virðulegi forseti: Hér eru tvö (Forseti hringir.) forsendubrestsár tekin en víða úti á landsbyggðinni (Forseti hringir.) hefur forsendubrestur varað í (Forseti hringir.) nokkra áratugi.