143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[16:53]
Horfa

Edward H. Huijbens (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Willum Þór Þórssyni fyrir ræðu hans um leiðréttingu á verðtryggðum fasteignalánum. Hv. þingmaður nefndi í ræðu sinni að heimili á Íslandi væru skuldsett upp að sem nemur 108% af landsframleiðslu. Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður gæti útlistað aðeins nánar samspil þessarar skuldsetningar og þess úrræðaleysis sem felst í raun í séreignarleiðinni. Fólk hér á landi hefur í raun og veru ekki átt neitt val annað en skuldsetja sig og kaupa hús. Hér hefur ekki verið virkur leigumarkaður og meira að segja var leigumarkaðurinn skemmdur og jafnvel eyðilagður, ásamt öðrum búsetuúrræðum, á árunum fyrir hrun. Á meðan rauk upp fasteignaverð þegar aðrir aðilar komu inn á markaðinn þannig að fólk átti í raun ekki val um annað en kaupa sér hús á tímum þegar fasteignaverð óx og bóla var í gangi. Hvernig sér hv. þingmaður samspil skuldsetningarinnar við þetta og eru stjórnarflokkarnir með lausnir á þessu? Getum við leyst úr þessu til framtíðar, þ.e. að neyða fólk ekki í það að þurfa að kaupa og skuldsetja sig, og boðið upp á önnur úrræði?

Í annan stað vildi ég spyrja hv. þingmann hversu mikið mark er hægt að taka á þeim myndum sem kynntar eru á bls. 15–17 í frumvarpinu sem snúa að því hver fær hvað og oft hefur verið vitnað til. Þar er ekki tekið tillit til frádráttar en frádráttarliðir eru taldir upp í 8. gr. Það er ljóst að þessi mynd á eftir að skekkjast og ég hef grun um að hún eigi eftir að skekkjast í átt til þeirra tekjuhærri, þ.e. þeir tekjuhærri og eignameiri munu fá meira þegar tekið hefur verið tillit til frádráttar, þeirra liða sem munu dragast frá. Það voru auðvitað frekar tekjulægri barnafjölskyldur og aðrir sem nutu úrræða á síðasta kjörtímabili og þau úrræði eru þar af leiðandi til frádráttar núna. Ég hef grun um að þessi mynd skekkist og ég spyr hv. þingmann að hve miklu leyti sé hægt að taka mark á þessum myndum í raun.