143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[17:49]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Jú, sem betur fer er úrræðið ekki tekið af fólki, skárra væri það nú. En hins vegar er tekinn í burtu sá möguleiki sem settur er aftur fyrir í greiðslujöfnuninni, þ.e. að það sem eftir stendur þegar tíminn hefur verið lengdur um þrjú ár verði afskrifað. Það er tekið í burtu ef byrjað er á að setja greiðsluna þarna inn.

Mér finnst afar mikilvægt að nefndin fari gaumgæfilega yfir þessa forgangsröðun og greini hver hagnist mest af þeirri aðgerð og hvernig hægt væri að haga þessum hlutum með öðrum hætti.

Hv. þingmaður og fleiri hv. stjórnarþingmenn hafa minnt okkur á það aftur og aftur að það eru 60% heimila sem eru með lægri árslaun en 8 milljónir kr. sem fá (Gripið fram í: Lækkun.) lækkun. Hinn hlutinn af því dæmi er að 40% eru þá með hærri tekjur, (Gripið fram í.) eða hvað? (Gripið fram í.) Nei, mér finnst mikilvægt þegar við réttum fólki fé úr ríkissjóði sem stendur afar illa að skotheld rök séu þar að baki. Af hverju ættum við að láta ríkt fólk fá 4 millj. kr. úr ríkissjóði? Af hverju? Á þessum enda eru 32 milljarðar sem við gætum t.d. rétt leigjendum, við gætum meira að segja tekið 1–2 milljarða og lækkað tryggingagjald sem kæmi til góða fyrir öll fyrirtæki í landinu.