143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[17:56]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar spurningar.

Nýlega var samþykkt hér á Alþingi Hagstofufrumvarpið svokallaða sem var mikið rætt hér fram og til baka og hv. allsherjar- og menntamálanefnd fór í gegnum það. Þau lög ættu að auðvelda okkur að safna upplýsingum um skuldug heimili. Nú er ég sjálf ekki í hv. allsherjar- og menntamálanefnd og þekki frumvarpið ekki alveg út og inn, en gerðar voru á því breytingar sem menn fóru með hér í gegnum þingið.

Hv. þingmaður spyr um dæmigert heimili sem fengi toppniðurgreiðslu núna, sem sagt 4 milljónir. Það hlýtur að vera heimili sem fékk ekkert síðast og ekki heldur sérstöku vaxtabæturnar. Sérstöku vaxtabæturnar voru bundnar við eignir, þannig að við hljótum þá að vera að tala um vel stæðan eignamikinn einstakling og einstaklinga. Þeir eru að fá hæstu mögulegu útgreiðslu úr skuldugum ríkissjóði, og það er það sem mér finnst vera mjög alvarlegt. Ég vil horfa á þennan hluta, sem getur vel ráðið við vandann, og skoða þann hluta af leiðréttingunum og athuga hvort ekki er hægt að dreifa þessu með öðrum hætti.

Vissulega mun þetta skipta máli fyrir rekstur margra heimila, ég efast ekki um það. En ég er algjörlega á móti því að rétta eignamiklu fólki peninga úr skuldugum ríkissjóði.