143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[18:46]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í ljósi svars hv. þingmanns er það kannski nokkuð kaldhæðnislegt að það skuli vera ríkisstjórn sem hafi sjaldgæflega mikið fylgi á landsbyggðinni og í landsbyggðarkjördæmunum sem standi fyrir þessum peningatilfærslum til höfuðborgarsvæðisins frá hinum dreifðu byggðum.

Vegna þess að hv. þingmaður rakti forsendubrestinn — sem hefur auðvitað verið viðvarandi á Vestfjörðum, svo að dæmi sé tekið, og víðar á köldum markaðssvæðum — þá er athyglisvert að í frumvarpinu er hvergi gerð tilraun til að skilgreina forsendubrestinn sem verið er að bæta. Aðstæðurnar sem við erum að fást við eru ekki fordæmalausar í íslenskri sögu. Það er ekki fordæmalaust að það verði verðbólguskot upp á tæp 20% sem hafi í för með sér mikla hækkun verðtryggðra skulda heimilanna, það hefur oft gerst áður.

Það er fordæmalaust að ráðast í mjög mikla aðgerð til að greiða verðbólgubætur. Hún hefur auðvitað fordæmisgildi, pólitískt fordæmisgildi. Hún skapar væntingar meðal þjóðarinnar við sambærilegar aðstæður á síðari stigum. Og ríkisstjórnin reynir ekki einu sinni að skilgreina forsendubrest. Hún reyndi það í sumar, ég ætla að hrósa henni fyrir það. Í þingsályktunartillögunni í sumar var sagt að forsendubresturinn fælist í hækkun verðtryggðra lána umfram 4,8% á árunum 2007–2010. Nú er hvergi minnst á orðið „forsendubrest“, það er enginn sem á lagalegan rétt á grundvelli þessa. Þetta er því orðinn algjör lögfræðilegur óskapnaður. Það er ekki verið að reyna að bæta neinar sérstakar aðstæður eða bregðast við þeim og þess vegna verður maður mjög hugsi yfir því hvaða fordæmi verið er að skapa, hvaða væntingar verið er að skapa.

Ég vildi spyrja hv. þingmann: Sér hún einhver efnisleg rök fyrir því að (Forseti hringir.) bæta þetta tjón, sem stjórnarflokkarnir reyna ekki einu sinni að skilgreina hvert er, (Forseti hringir.) eða hverjir hafi farið sérstaklega illa út úr því, (Forseti hringir.) í samanburði við þann forsendubrest sem fólk á Vestfjörðum hefur mátt búa við alla tíð?