143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[19:24]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er orðin svo slitin umræða. Nú erum við komin hringinn og að því sem ég byrjaði mína ræðu á að segja, að þetta frumvarp væri ekki um þá hópa sem virðulegi þingmaður fór yfir. Hér er fjallað um verðtryggð fasteignalán eins og Framsóknarflokkurinn talaði um í kosningabaráttunni. Ég sagði ekki að þetta frumvarp þyrfti að koma til vegna þess að Hæstiréttur hefði dæmt ákveðinn lánaflokk ólöglegan. Síður en svo. Gengistryggðu lánin og verðtryggðu lánin snarhækkuðu og gengistryggðu lánin þó enn meir í bankahruninu. Eru menn algjörlega búnir að gleyma því hvað gekk hér á? Er það svo? Og hér kemur þingmaðurinn fram sem átti aðild að síðustu ríkisstjórn — eigum við að fara að rifja upp fortíðina, virðulegi forseti, þegar hér situr hv. þm. Árni Páll Árnason í salnum? Eru allir búnir að gleyma Árna Páls-lögunum sem voru keyrð í gegnum þingið en síðar dæmd ólögleg?

Virðulegi forseti. Höfum (Forseti hringir.) umræðuna á hærra plani en birtist hér.