143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[23:58]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra ræðuna og samantektina eftir umræðuna þessa tvo daga. Hæstv. ráðherra kemst ágætlega að orði í yfirferð sinni þegar hann segir að ef við förum í almenna aðgerð skiljum við ekki út undan, og höfðar að nokkru leyti til móðurhjartans í mér. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort ekki hafi komið til álita að lögaðilar næðu þarna undir, vegna þess að það er sannarlega um sams konar forsendubrest að ræða þar, þ.e. þær forsendur sem brustu gagnvart leigjendum í leigufélögum þar sem líka var um sams konar verðtryggð fasteignalán að ræða. Ég vildi spyrja um þetta vegna þess að ég skynjaði það í umræðunni að þetta hefði verið ákvörðun sem tekin var við málatilbúnaðinn, þ.e. að við gerð frumvarpsins hefði þetta verið sjálfstæð ákvörðun sem ekki lá endilega fyrir, þ.e. menn þurftu að taka afstöðu til þess sérstaklega hvort lögaðilar og leigufélög ættu að vera þarna undir.

Mig langar líka að velta hér upp spurningu sem er skyld þeirri sem hv. þm. Helgi Hjörvar var með hvað varðar framkvæmdina. Þegar rætt er um að opnað verði fyrir vefsíðu og menn geti slegið inn kennitölu sína og einhverjar upplýsingar allt frá 15. maí, ef allt gengur hér fram, og síðan verði það 1. september að fjársjóðskistan verði opnuð og mönnum gerð grein fyrir því hvað fellur hverjum og einum í skaut.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra, vegna þess að fyrir liggur að þetta verði nokkuð flókið reikningsdæmi fyrir hvern og einn, en þetta er mikil upplýsingatækniaðgerð eins og fram hefur komið: Hefur ráðherrann einhverjar áhyggjur af því að þetta gangi ekki fram eins og (Forseti hringir.) spáð hefur verið, þ.e. að þessu augnabliki, þessu töfraaugnabliki 1. september, muni seinka?