143. löggjafarþing — 93. fundur,  9. apr. 2014.

almannatryggingar og staða öryrkja.

[16:11]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir umræðuna. Ég ætla aðeins að renna í gegnum nokkrar spurningar sem komu fram. Það kom hvatning bæði frá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni og hv. þm. Helga Hjörvar um mikilvægi þess að taka ákvörðun um samkomulagið um víxlverkanir á milli almannatrygginga og lífeyrissjóðanna. Ég tek undir það. Öryrkjabandalagið sendi mér bréf með tveimur tillögum um hvernig hægt væri að leysa þetta, annars vegar að lífeyrissjóðunum væri einfaldlega bannað að tekjutengja við greiðslur almannatrygginga og hins vegar að samkomulagið yrði framlengt þar til vinnunni í almannatryggingahópnum væri lokið.

Þetta höfum við verið að skoða og ég vonast til þess að fljótlega liggi fyrir niðurstaða hvað það mál varðar.

Ég nefndi líka mikilvægi þess að við héldum áfram að byggja upp starfsendurhæfingu. Þar hafa aðilar vinnumarkaðarins staðið sig mjög vel. Ég held að við munum sjá á næstu mánuðum, missirum og árum verulegan árangur í þeirri vinnu að hjálpa fólki að komast aftur út á vinnumarkaðinn eftir að hafa veikst eða misst starfsgetuna af einhverri annarri ástæðu. Ég held að líka sé mikilvægt að huga að því sem ég tel að hv. þm. Birgitta hafi nefnt, um samspilið milli kostnaðar í heilbrigðisþjónustunni og greiðslu Sjúkratrygginga og síðan almannatrygginga. Það er mjög bagalegt að þegar við hækkum öðrum megin skulum við skerða hinum megin. Það þarf að huga að því samspili.

Varðandi að treysta Tryggingastofnun fyrir persónuupplýsingum er það þannig að Tryggingastofnun hefur í mörg ár farið með mjög viðkvæmar persónuupplýsingar og hefur gert það mjög vel. Ég bið menn að horfa til reynslunnar af því. Þessar persónuupplýsingar eru forsenda fyrir ákvörðun varðandi bætur og þess vegna er nauðsynlegt fyrir stofnunina að hafa (Forseti hringir.) þær heimildir.

Ég þakka líka fyrir ábendingar sem snúa að því hvað það er sem við getum gert strax. (Forseti hringir.) Ég er viss um að Tryggingastofnun mun huga að því og það er ýmislegt sem við höfum verið að gera. Ég minni á fyrirmyndardaginn og líka það verkefni Öryrkjabandalagsins að búa í samstarfi við Vinnumálastofnun til 100 ný störf fyrir öryrkja og fatlað fólk.