143. löggjafarþing — 94. fundur,  9. apr. 2014.

fjögurra ára samgönguáætlun 2013--2016.

495. mál
[20:23]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það hefur verið áhugavert að fylgjast með umræðum hér í dag. Eðli málsins samkvæmt er hægt að ræða um samgöngumál út frá ýmsum forsendum og ég held svo sannarlega að hvert einasta mannsbarn geti haft á þeim miklar skoðanir. Samgöngumálin og þessi samgönguáætlun eru sama marki brennd og margt annað, við munum aldrei geta gert nóg, það mun aldrei koma sá tími að við getum sagt: Þetta er helst til mikið sem við erum að fara í núna í samgöngum. Það eru endalaus verkefni á því sviði, sem betur fer.

Ég kem hins vegar úr nokkuð annarri átt en þeir sem hafa á talað hér á undan og legg áherslu á sömu atriði og ég hef gert frá því að ég hóf störf á Alþingi og líka þegar ég var í borgarstjórn og tala út frá umferðaröryggismálum. Mér finnst ganga hægt að við Íslendingar leggjum áherslu á umferðaröryggismál. Það eru allir sammála um þau í orði en þegar kemur að framkvæmdinni er ekki mikið sem gerist og þar eru allir flokkar sama marki brenndir og í raun umræðan í þjóðfélaginu, í fjölmiðlum og annars staðar, umferðaröryggismál eru ótrúlega lítið í umræðunni.

Nú getur einhver sagt að þau séu umdeilanleg, að hægt sé að hafa allar skoðanir á umferðaröryggismálum, hvaða vegir séu öruggir, hverjir óöruggir o.s.frv. En það er ekki þannig. Sem betur fer eigum við gott yfirlit yfir það hvaða vegir eru hættulegir, hverjir eru öruggir og búi er að taka út alla vegi á Íslandi. Það er gert eftir samevrópsku kerfi, evrópsku umferðaröryggisverkefni sem heitir EuroRap. Ég fór fram á og lagði það til við fyrrverandi hæstv. samgönguráðherra árið 2005 að farið væri í það verkefni. Það hefur verið gert og menn geta nálgast það á vef Samgöngustofu.

Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að forgangsraða í þágu umferðaröryggis. Ég geri engar athugasemdir við að hver hv. þingmaður veki athygli á því sem er gerast í kjördæmi hans, til þess eru þeir kosnir, en ég hefði viljað sjá umræðuna ganga út á að menn bentu á að ekki væri búið að taka út hættulegustu vegina í kjördæmi þeirra.

Hvar skyldu mestu slysin verða? Langflestu slysin verða ekki á höfuðborgarsvæðinu, slysin verða í Reykjavík. Og það er alveg vitað hvar þeir staðir eru þar sem slysin verða. Ég verð var við það þegar ég tala um þessi mál að fólk trúir mér ekki. Hvaðan ætli maður hafi upplýsingarnar? Úr opinberum gögnum. Ef við tökum árin 2007–2011 urðu 43% alvarlegra slysa á Íslandi, og alvarleg slys eru þannig skilgreind að viðkomandi einstaklingur nær aldrei fullum bata, í Reykjavík. 18% banaslysa urðu í Reykjavík.

Það fara eiginlega engir fjármunir í framkvæmdir og viðhald í Reykjavík. Það hefur verið lítið en það var gerður samningur um að það yrði ekki neitt. Og menn segja: Við ætlum að leggja áherslur á almenningssamgöngur og vistvæna ferðamáta. Það er ekkert að því, það er hið besta mál. En við getum ekki lokað augunum fyrir þeirri staðreynd að slysin verða í Reykjavík. Það þarf auðvitað enginn að velkjast í vafa um að það er tilfinningalegur skaði sem fylgir umferðarslysum, eins og öðrum slysum, sem aldrei verður mældur.

Ef við tökum kostnaðinn við umferðarslys, sem hefur verið gert, Hagfræðistofnun Háskóla Íslands tók í desember 2012 út kostnað við umferðarslys á Íslandi, var kostnaðurinn á verðlagi ársins 2009 23–24 milljarðar kr. Við skulum segja 23,5 milljarðar kr. Það er kostnaðurinn við slysin. Það skiptir engu máli hversu mikið við leggjum áherslu á — sem er sjálfsagt og ég styð það — gangandi og hjólandi umferð o.s.frv. Ég hjóla sjálfur þegar ég hef tækifæri til og kann vel við þann ferðamáta og skil vel áhugann á honum, en það breytir því ekki að við erum ekki að fara að hætta, og munum ekki sjá það gerast, að nota bíla á Íslandi. Og einn ferðamáti útilokar ekki annan. Þetta snýst ekki um að velja á milli almenningssamgangna og einkabílsins eða velja á milli hjólandi umferðar og almenningssamgangna. Við eigum að huga að öllum ferðamátum.

Við erum svo lánsöm að sem betur fer hafa hjólreiðar aukist mjög, en hjólreiðaslys hafa líka aukist mjög og þau eru mjög alvarleg. Fjöldi einstaklinga sem lentu í hjólreiðaslysi fór úr 44 árið 2002 í 84 árið 2011. Ég hef ekki séð nýjustu tölur, enda er það ekki aðalatriðið í þessu, þær tölur sem ég er með hér eru alveg nógu alvarlegar.

Virðulegi forseti. Ég hvet hv. umhverfis- og samgöngunefnd til að líta til umferðaröryggismála. Ég lít svo á að það sé samstaða um þau í orði en það er langt frá því að það nái eitthvað lengra, langt frá því.

Slysin verða úti um allt land. Það er búið að taka út alla vegi. Hér hefur verið bent á einbreiðar brýr og annað slíkt sem er auðvitað mjög alvarlegt og hættulegt, en hætturnar leynast víðar. Það er svo að við erum búin að taka út þessa vegi, við höfum upplýsingarnar en við notum þær ekki til að forgangsraða í samgöngumálum, það er staðreynd málsins. Mín skilaboð eru því einföld, ég gæti tekið út allt landið og tekið út ýmsa vegi og samgöngumannvirki en ég ætla bara að leggja áherslu á þennan þátt og mun gera það þegar málið kemur frá nefndinni. Ég mun spyrjast fyrir um efndir hvað þetta varðar vegna þess að það kemur okkur öllum við, sama hvar við erum.

Hér hefur lítillega verið rætt um annað sem ég ætla að nefna, sem tengist umferðaröryggismálum ekki beint og það er hálendið. Ég tel að við eigum að hugsa málið mjög vel áður en við förum í það að byggja upp hálendisvegi eins og þá vegi sem við erum með, getum við sagt, á láglendinu. Upplifunin við að fara um hálendi Íslands er stórmerkileg, frábær, en hún er m.a. til komin vegna þess að að stærstum hluta förum við um vegi sem eru sannarlega ekki greiðfærir. Ef við breytum því, að vísu erum við með malbikaða vegi á hálendinu í tengslum við mannvirki eins og virkjanir og annað slíkt, held ég að við mundum missa mjög mikið af þeim sjarma og þeirri upplifun sem er í boði og við getum boðið okkur sjálfum upp á og öðrum ferðamönnum á hálendinu, ef við göngum þá leið að setja upp vegi eins og við þekkjum á láglendinu. Ég held að það væru óafturkræf spjöll ef við færum þá leið. Ég veit að flestir þeir sem ferðast um hálendið — ég reyni að gera það þegar ég get það — eru sammála um þetta, auðvitað ekki allir. Gallinn við slíka framkvæmd, þ.e. að byggja upp hálendið með vegum sem við þekkjum á láglendinu, er að þegar við erum búin að því verður ekki aftur snúið. Við munum ekki eyðileggja þá ef við skiptum um skoðun og reyna að búa aftur til gömlu slóðana.

Virðulegi forseti. Skilaboð mín eru mjög skýr: Forgangsröðum í þágu umferðaröryggis. Höfum það hugfast að umferðarslysin verða í Reykjavík. Þar ætlum við hins vegar ekki að setja nokkra einustu peninga í framkvæmdir og viðhald.