143. löggjafarþing — 94. fundur,  9. apr. 2014.

flutningur netöryggissveitar til ríkislögreglustjóra.

520. mál
[23:17]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið sem skýrir málið nokkuð. Ég skil það þá þannig að það sem er skýrast hér sé fyrirsögnin, þ.e. að yfirskrift frumvarpsins sé lýsandi fyrir það markmið sem hæstv. ráðherra hefur mælt fyrir og ekki ætlunin með frumvarpinu að opna fyrst og fremst fyrir þann möguleika að þessi sveit sé rekin af einhverjum aðila eða hún sé einfaldlega starfrækt og opnað fyrir að hún fari nákvæmlega á þennan stað en gæti farið eitthvert annað. Það skiptir miklu máli að þetta komi fram við 1. umr. málsins, hver sýn ráðherrans er, hvað hún vill sjá verða úr þessu máli. Hins vegar er það rétt sem hefur komið fram að auðvitað er nefndarinnar að vega það síðan og meta hvort þessi leið er best.

Þá vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort hún getur í stuttu andsvari nefnt hvaða valkostir aðrir væru í stöðunni, vegna þess að ég sé ekki betur en það væri vel hægt að halda samskiptum netöryggissveitar innan embættis ríkislögreglustjóra við Póst- og fjarskiptastofnun með einhverri þeirri umgjörð sem mundi tryggja að það samstarf og þau samskipti væru með skipulegum hætti. Það gæti hugsanlega verið í einhverri lagagrein eða bráðabirgðaákvæði, eða hvernig það yrði hugsað, til að gæta vel að því að þessi viðkvæmu fyrstu skref fengju þá faglegu næringu sem nauðsynleg er til að hún þroskist á sem bestan og skynsamlegastan hátt.

Ég fagna auðvitað einu verkefninu til fyrir allsherjar- og menntamálanefnd og vænti þess að við munum leysa þetta verkefni vel, við munum a.m.k. taka það til uppbyggilegrar skoðunar.