143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

styrkir til menningarminja.

[10:49]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka einlægan og langvarandi áhuga hv. þingmanns á þessu máli. Ég hef alltaf gaman af því að ræða þessi mál og ekki hvað síst mál sem tengjast húsafriðun.

Það er kannski rétt að taka það fram eina ferðina enn eftir fyrirspurn hv. þingmanns að þetta eru ekki húsafriðunarmál, þetta eru atvinnumál. Þetta eru styrkir til atvinnumála. Það vill svo til að í mörgum tilvikum voru verkefni við menningarminjar, m.a. gömul hús, styrkt en það er vegna þess að slík verkefni eru mjög vel til þess fallin að skapa atvinnu, bæði beint vegna þess að að því þurfa að koma iðnaðarmenn, þetta eru oft mannaflsfrekar framkvæmdir og atvinnuleysi í byggingariðnaði hefur eins og þekkt er verið töluvert vandamál, einkum eftir efnahagshrun, en einnig hefur þetta mjög jákvæð efnahagsleg og atvinnuleg áhrif í framhaldinu, þ.e. þetta byggir undir atvinnusköpun eftir að hinum eiginlegu verkefnum, þ.e. verkefnum sem voru styrkt, er lokið.

Hvað varðar tímasetningar og þann flýti sem hv. þingmaður getur um þá er rétt að benda á það eina ferðina enn líka að um var að ræða lið frá síðasta kjörtímabili, þ.e. þetta er fyrir fjárlög ársins 2013. Þetta er ekki sjóður, af því að hv. þingmaður nefndi það sérstaklega að sjóðir sem veita styrki fara eftir faglegum verklagsreglum o.s.frv. Hér er um að ræða sérstakan lið á fjárlögum til að veita styrki til atvinnuuppbyggingar. Þetta var ekki að byrja núna með þessum styrkjum. Það er búið að veita fjölmarga styrki til ýmiss konar mála en í þeim tilvikum höfðu þau ekki farið í gegnum sama ferli og þessi mál þó fóru í gegnum vegna þess að við í ráðuneytinu töldum mikilvægt að fara vel yfir öll hugsanleg verkefni þannig að þetta fjármagn nýttist sem best. Í framhaldinu (Forseti hringir.) hefur reglunum verið breytt til þess einmitt að koma til móts við þau sjónarmið sem hv. þingmaður lýsti.