143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

styrkir til menningarminja.

[10:51]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Það er gott að heyra að hæstv. forsætisráðherra hefur gaman af því að ræða þetta mál við mig vegna þess að ég kallaði eftir sérstakri umræðu um það og hef beðið nokkuð lengi. Ég vonast til þess að umræðan geti farið fram fljótlega eftir páska því ég veit að það eru fleiri þingmenn sem vilja taka þátt í málinu og þá getur hæstv. ráðherra enn betur útskýrt mál sitt.

Ég er innilega ósammála því sem kom fram í máli hæstv. ráðherra. Ég er ekki að spyrja hvernig hlutirnir voru gerðir í tíð fyrri ríkisstjórnar. Ég held reyndar að það hafi verið faglegra ferli en þetta. Það sem ég er að segja er að þetta eru peningar sem voru á ákveðnum fjárlagalið, það var ákveðið að veita þá í ákveðið verkefni. Mér finnst rétt að peningar skattgreiðenda fari í fagsjóði og sé úthlutað eftir faglegum verklagsreglum. Það kemur fram í svarinu að þetta sé einskiptisaðgerð, þetta verði ekki gert aftur. Það hjálpar heldur ekki neitt. Þetta eru eftir sem áður 205 milljónir sem ég tel að hafi ekki verið varið á faglegan hátt. En við hæstv. forsætisráðherra erum þá kannski ósammála um það.

Varðandi flýtinn finnst mér ég ekki enn hafa fengið svar við því. Það er rétt, þetta var á fjárlögum síðasta árs. Af hverju kom ekki til greina að fella þann fjárlagalið niður ef það þurfti að gera þetta í svona miklum flýti og setja þá þessa peninga inn á fjárlög ársins 2014? Er hæstv. ráðherra virkilega þeirrar skoðunar að fjárlagaliður geti dottið upp fyrir, eða hvernig sem það var orðað?