143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

efnahagsstefnan og EES-samningurinn.

[11:05]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég var ekki að spyrja hæstv. forsætisráðherra um íslenska krónu í höftum. Ég gekk út frá því að það tækist að leysa snjóhengjuna og brjótast út úr höftunum. En þá segja bæði Seðlabankinn og fjármálaráðuneytið að eftir sem áður og varanlega þurfi að vera á íslensku krónunni umtalsverðar viðskiptahindranir, það þurfi að stýra því hvernig lífeyrissjóðirnir megi fara til útlanda, það þurfi að vera með bindiskyldu á eldri fjármögnun o.s.frv. þó að við komust út úr höftum vegna þess hversu veikur gjaldmiðillinn er.

Ég spyr: Hefur ríkisstjórnin kannað það við ESA hvort slíkur umbúnaður við gjaldmiðil okkar stenst til frambúðar samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og hefur ríkisstjórnin kannað hvort það að við getum ekki tryggt frjálst flæði fjármagns með íslensku krónuna og þeim takmörkunum sem verða að vera á viðskiptum hennar geti ógnað samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og þar með meginútflutningshagsmunum íslensku þjóðarinnar, tollfrjálsum aðgangi fyrir sjávarafurðir inn á helstu markaði okkar, lönd Evrópu?