143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

efnahagsstefnan og EES-samningurinn.

[11:06]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég skil ekki alveg þessa tilburði sem ég hef orðið var við að undanförnu hjá nokkrum þingmönnum stjórnarandstöðunnar, að fara allt í einu að gera lítið úr EES-samningnum sem a.m.k. gamli Alþýðuflokkurinn taldi sitt helsta afrek. Allt fyrir ekkert, sagði Jón Baldvin Hannibalsson ef ég man rétt. Nú er þessi gamli EES-samningur allt í einu orðinn mjög takmarkaður og ómögulegur á ýmsan hátt og auðvitað grunar mann að það tengist því að nú langar menn lengra og vilja þar af leiðandi gera alla valkosti aðra en aðild að Evrópusambandinu tortryggilega. Þær áhyggjur og athugasemdir hv. þingmanna eru óþarfar. EES-samningurinn mun halda gildi sínu og við munum geta nýtt okkur hann áfram með krónu sem verður hugsanlega háð einhverjum takmörkunum á flæði, rétt eins og Evrópusambandið sjálft þarf að fara í gegnum það hvort hið algerlega takmarkalausa flæði fjármagns milli landa kunni ekki að verða hættulegt og vera rótin að fjármálakrísunni sem stóð frá árinu 2007 og jafnvel fram á þennan dag.