143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

mat á umhverfisáhrifum.

467. mál
[11:16]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra yfirferð yfir þetta mál og minni hv. þingmenn á að frumvarp mjög svipaðs efnis var til umfjöllunar í þinginu fyrir ári síðan eða svo og var komið býsna langt í meðförum þingsins. Ef minnið svíkur mig ekki illa þá hafði á þeim tíma þingnefndin umhverfis- og samgöngunefnd þegar lokið við að gera nefndarálit og var málið því komið í talsverða vinnslu. Hæstv. ráðherra rakti nokkrar breytingar á frumvarpinu miðað við hvernig það var þá en engu að síður liggur væntanlega töluverð vinna til grundvallar sem hv. umhverfis- og samgöngunefnd hefur þegar unnið í þessu máli og getur orðið til gagns í þeirri vinnu sem fer fram í nefndinni í kjölfar framlagningar frumvarpsins nú.

Það vekur hins vegar nokkrar áhyggjur mínar hversu seint á þessu þingi þetta frumvarp er borið fram. Hv. þingmenn átta sig náttúrlega á því að líklega bendir það í þá átt að tæplega náist að klára málið, a.m.k. ekki fyrir vorið. Það er ekki enn talað neitt sérstaklega hátt um að það sé í kortunum að hafa sumarþing þannig að líklega frestast þetta mál eitt ár í viðbót. Eins og hv. þingmenn vita hafa því miður komið ábendingar um að við séum orðin dálítið langt á eftir með þetta mál. Þess vegna hefði ég viljað að málið hefði verið tekið fyrir fyrr og náist ekki að klára það vil ég hvetja hæstv. ráðherra eindregið til að búa þannig um hnútana að það verði lagt fram snemma á haustþingi svo að það náist í raun að klára málið á þessu ári ef vilji ráðuneytisins stendur til þess.

Frumvarpið lítur út fyrir að vera afskaplega flókið, sérstaklega viðaukarnir. Ég vil til hugarhægðar benda hv. þingmönnum á að það tekur nokkurra stunda yfirlegu að átta sig nokkurn veginn á þessu. Hv. þingnefnd gerði það með ágætum, fékk raunar mjög góða yfirferð um málið frá starfsmönnum ráðuneytisins á sínum tíma þannig að menn gátu sett sig inn í það á tiltölulega stuttum tíma.

Þær breytingar sem hæstv. ráðherra rakti sýnist mér að séu fljótt á litið til þess að þétta umhverfisréttinn, ef eitthvað er. Ég hef ekki endilega stórar áhyggjur af þeim undanþágum eða þeim litlu tilhliðrunum sem hæstv. ráðherra nefndi, en þingnefndin mun vafalítið skoða það gaumgæfilega og reyna að átta sig eftir föngum á því hvernig það mál stendur. Umsagnir frá umsagnaraðilum ættu ekki að taka mjög langan tíma. Væntanlega eiga flestir umsagnaraðilarnir umsagnir sínar til frá því að málið var flutt í fyrra og þess vegna er ekki mikil hætta á því að málið tefjist umtalsvert vegna þess.

Í viðaukanum eru — þingmenn sjá það þegar þeir líta yfir þau atriði sem þar eru talin upp — ákaflega mörg mál undir sem er ekki beinlínis mikil hætta á að við þurfum að hafa stórkostlegar áhyggjur af, eins og flókinn námugröftur o.fl. Þar eru hins vegar þættir sem skipta miklu máli fyrir umhverfismál á Íslandi, til að mynda skógrækt eins og hæstv. ráðherra kom inn á og mörg önnur umhverfismál. Þarna er líka komið inn á það sem var í fyrra frumvarpinu, að talið væri óhætt að láta tilteknar litlar framkvæmdir ekki vera matsskyldar. Þá kemur fram í þessu frumvarpi, sérstaklega eftir dóm sem er talinn upp á bls. 15 í þingskjalinu, að Evrópudómstóllinn telji að jafnvel mjög litlar framkvæmdir eða litlar breytingar í umhverfi geti haft umtalsverð áhrif og þess vegna er í rauninni lagt til að þær verði ekki undanskildar. Það er afar mikilvægt að menn horfi til þess því að það getur styrkt umhverfisréttinn mjög mikið og bætt stöðu þeirra sem virðast hafa lítilla hagsmuna að gæta í fljótu bragði en skiptir miklu máli fyrir umhverfisréttinn og umhverfið til lengri tíma litið, sérstaklega þegar við horfum til þátta eins og þeirra að við erum að reyna að nota landið okkar í fjölbreyttari tilgangi en bara þeim að sækjast eftir handföstum auðlindum þess. Við notum landið líka í æ ríkara mæli til að sýna það, leyfa öðrum að skoða það. Þá skiptir miklu máli að við förum vel með og að við notum vel þann auð sem okkur hefur verið færður því að það sem maður tekur af og eyðir notar maður ekki aftur en það sem maður passar og sýnir getur maður notað aftur og aftur og fleiri og fleiri og kynslóðir eftir kynslóðir geta þá notið gæðanna sem undir eru.

Ég vil að lokum, herra forseti, hvetja eindregið til þess að hv. þingnefnd reyni eftir megni að hraða meðferð málsins ef þess er nokkur kostur. Náist góð samstaða í nefndinni verður kannski hægt að klára þetta mál fyrir vorið, en til þess þarf að halda virkilega vel á málum og til þess þarf forusta nefndarinnar og raunar þingmenn allir að vera tilbúnir að greiða götu þessa máls svo að við lendum ekki eina ferðina enn í því að á endasprettinum sé því ýtt yfir á næsta þing og næsta þing og síðan verði endalaust byrjað aftur og aftur á sama málinu.