143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

mat á umhverfisáhrifum.

467. mál
[11:24]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsögu sína og fyrir að leggja fram þetta mál sem er, eins og kom fram bæði í máli hæstv. ráðherra og hv. þm. Ólafs Þórs Gunnarssonar, tímabært. Ég tek undir orð hv. þingmanns sem hér talaði á undan um að við munum að sjálfsögðu greiða fyrir því að við getum unnið vel með þetta mál í hv. umhverfis- og samgöngunefnd þar sem ég á sæti.

Ég velti sérstaklega fyrir mér einni breytingu sem gerð hefur verið á málinu frá því að það var lagt hér fram síðast. Það er breyting sem lýtur að því að tekið er undir umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga sem barst um fyrra frumvarp. Þá var gert ráð fyrir því að stjórnsýsla allra framkvæmda í A-, B- og C-flokki væri hjá Skipulagsstofnun en í þessu frumvarpi er lagt til að stjórnsýsla þeirra framkvæmda sem eru tilgreindar í flokki C verði hjá sveitarfélögum. Þetta er vissulega í takt við umsögn sambandsins þannig að í þessu frumvarpi er lagt til að sveitarstjórn taki ákvörðun um matsskyldu þeirra framkvæmda sem falla undir flokk C og eru háðar framkvæmda- og byggingarleyfum þeim sem kveðið er á um í skipulagslögum og lögum um mannvirki. Eins og kom fram í máli hæstv. ráðherra eru leyfi sem Mannvirkjastofnun gefur út undanskilin ákvörðun sveitarstjórnar og mun Skipulagsstofnun taka ákvörðun um matsskyldu þeirra framkvæmda.

Það er raunar gert ráð fyrir að Skipulagsstofnun hafi leiðbeiningarhlutverk gagnvart sveitarstjórnum varðandi ákvörðun um matsskyldu framkvæmda og stofnunin muni semja leiðbeiningar og hafa eftirlit með málsmeðferð sveitarstjórna og þar verði sett á fót rafrænt gagnasafn þar sem skráðar verði upplýsingar um framkvæmdir og leyfi til þeirra framkvæmda sem falla undir lögin og eftirlit stofnunarinnar fari fram í gegnum gagnasafnið. Gott og vel, en þær áhyggjur sem ég hef af því að ákvæðið sé lagt fram með þessum hætti eru fyrst og fremst þær að um viðkvæm mál getur verið að ræða í nærsamfélaginu. Það að leggja þetta í hendur viðkomandi sveitarstjórnar, jafnvel í litlum sveitarfélögum, vekur með manni spurningar um það hvort nálægðin verði hreinlega of mikil, hvort ekki sé eðlilegra að þetta heyri allt undir Skipulagsstofnun til að tryggja í raun og veru ferlið. Ég spyr mig líka hvort það sé eitthvert hagræði af því að undanskilja í raun og veru einn flokk framkvæmda með því að færa hann yfir til sveitarstjórna. Ég get ekki ímyndað mér að það sé endilega mikið hagræði af því að hafa þetta á tveimur stöðum, fyrir utan nálægðarsjónarmiðin sem valda mér áhyggjum.

Ég reikna með því að við förum nákvæmlega yfir þessa breytingu í hv. umhverfis- og samgöngunefnd. Þar er auðvitað líka mikilvægt að kanna hvernig Eftirlitsstofnun EFTA lítur á þessa breytingu. Ég reikna með því að ráðuneytið hafi fengið samþykki hjá Eftirlitsstofnun EFTA fyrir þessari breytingu. Það væri áhugavert að fá nánari útlistun á því þegar við fáum kynningu á málinu í nefndinni.

Nú liggur fyrir í hv. umhverfis- og samgöngunefnd annað mál sem lýtur að breytingum á þessum sömu lögum, nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum. Ég mun að sjálfsögðu nýta tækifærið þegar við ræðum um þetta mál í nefndinni og rifja upp það mál sem ég flyt raunar sjálf og lýtur að styttingu. Það væri auðvitað áhugavert að heyra sjónarmið ráðherra á því. Við höfum nú þegar rætt það mál aðeins í hv. umhverfis- og samgöngunefnd. Það frumvarp snýst um framkvæmdir, að stytta tímann sem þarf til að óska eftir endurskoðun á matsskýrslu. Eins og kunnugt er þá er sá tími núna tíu ár. Í frumvarpinu sem ég vísa hér í er gert ráð fyrir að hann styttist niður í sjö ár annars vegar og hins vegar að sú breyting verði gerð að frjáls félagasamtök á sviði umhverfismála geti óskað eftir slíkri endurskoðun í samræmi við ákvæði Árósasamningsins um þátttöku almennings í ákvörðunum á sviði umhverfismála. Ég ætla að nota tækifærið til að nefna að þetta mál er hjá nefndinni þannig að mér finnst ekki ólíklegt að ég muni a.m.k. ræða það þar hvort vilji sé fyrir því hjá nefndarmönnum að nýta ferðina ef við náum að klára stóra málið. Það má segja að umræðan um það mál hafi verið með nokkrum ágætum þótt auðvitað séu skiptar skoðanir í þeim umsögnum sem hafa borist. Til að mynda hafa mjög margir umsagnaraðilar lýst sig jákvæða gagnvart því að frjáls félagasamtök fái með þessum hætti aðgang að því að óska eftir endurskoðun á matsskýrslum. Líka hefur verið bent á að vissulega séu ákveðin skil á milli framkvæmdaraðila og annarra sem hafa skilað inn umsóknum, að tíu ár séu í raun og veru mjög langur tími, ekki síst á tímum þar sem afstaða okkar til umhverfisins breytist hratt og ágangur á umhverfið hefur stóraukist frá því sem var þegar lögin voru sett. Ég nefni þetta nú svo að það þurfi ekki að koma neinum á óvart.

Fyrst og fremst er þetta stórt mál, eins og ég sagði, og við eigum eftir að fara vel yfir það. Það liggur líka fyrir mikil vinna sem verður væntanlega hægt að nýta áfram. Það er þó helst breytingin sem færir stjórnsýslu framkvæmda í flokki C til sveitarfélaganna, þ.e. hún yrði ekki hjá Skipulagsstofnun eins og fyrri frumvörp gerðu ráð fyrir. Ég þekki vel afstöðu sambandsins og þá skiptir máli að skoða: Hvert er hagræðið af þessari breytingu? Skapar þetta of mikla nánd? Er þetta eitthvað sem Eftirlitsstofnun EFTA hefur í raun og veru heimilað við gerð frumvarpsins?

Að öðru leyti ætla ég ekki að hafa mörg orð um málið sem er auðvitað umtalsvert tæknilegt. Við þekkjum auðvitað þá stefnu sem hér hefur verið tekin að gera ákveðinn skurk í innleiðingu EES-tilskipana og reglugerða. Allmörg slík mál hafa til að mynda komið inn á borð þeirrar hv. nefndar sem ég sit í, hv. umhverfis- og samgöngunefndar. Allmörg mál er verið að flytja í þriðja sinn og voru þau jafnvel stoppuð á síðasta kjörtímabili af þáverandi stjórnarandstöðu sem leggur þau nú fram á nýjan leik. Það er auðvitað mjög skemmtilegt að horfa á það. Ég get alveg fullvissað hæstv. ráðherra um að við munum hins vegar greiða fyrir því að þetta mál fái góða og vandaða umræðu í hv. umhverfis- og samgöngunefnd.

Ég læt þetta duga að sinni.