143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

mat á umhverfisáhrifum.

467. mál
[12:25]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þingmaðurinn segir hér úr sæti sínu að hún sé bjartsýnissinni, ef svo má að orði komast. Þetta frumvarp til laga er ekki beinlínis til að breyta þeirri stöðu sem hv. þingmaður nefnir heldur er fyrst og fremst verið að skýra ákveðnar reglur og ákveðna ferla, eins og ég kom að áðan. En það er auðvitað stöðugt verið að bæta löggjöf og það er stöðugt verið að bæta þessi sjónarmið.

Það var greint sérstaklega í aðdraganda að gerð nýrra náttúruverndarlaga í hvítbókarvinna hverjar megintilhneigingar væru í íslenskri löggjöf að því er varðaði náttúruvernd. Þá kom fram, og er það óháð ríkisstjórn á hverjum tíma eða þeim lögum sem voru undir og verið var að skoða o.s.frv., að megintilhneigingin er sú, þrátt fyrir það sem við hv. þingmaður upplifum stundum sem náttúruverndarsinnar, að löggjöfin færist — þó hún færist allt of hægt — frá mannmiðaðri sýn yfir í náttúrumiðaða sýn. Það er ekki bara vegna þess að við erum svo frábær á Íslandi, sem ég vildi óska að væri málið, heldur vegna þess að við erum að mörgu leyti bundin bæði Evrópulöggjöf og alþjóðlegum samningum. Alls staðar er verið að færa náttúruverndarlöggjöf í áttina að því að náttúran eigi sér stöðu sjálfrar sín vegna, ekki bara til að þjóna okkur og ekki bara sem uppspretta auðlinda eða uppspretta nýtingar heldur að hún eigi sjálfstæðan tilverurétt og það sé í sjálfu sér mikilvægt að hún fái að þróast samkvæmt eigin lögmálum. Þessi breyting er almenn. Það sama má segja um mengunarmál, af því að hv. þingmaður talaði um þau, að almennt er farið að líta svo á að mannréttindi snúist líka um réttinn til heilnæms umhverfis og heilsu.