143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

mat á umhverfisáhrifum.

467. mál
[12:30]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þegar maður stendur í hringiðunni miðri er maður kannski ekki alltaf best læs á breytingar í umræðunni, hvort sem er hinni pólitísku umræðu eða samfélagsumræðunni. Það er auðvitað mikilvægt með reglubundnum hætti að staldra við og horfa yfir löng tímabil og horfa á það hvað hefur verið að gerast á löngum tímabilum þótt manni finnist stundum slagirnir tapast of margir.

Það er sannarlega eins og hv. þingmaður bendir hér á, græn hreyfing í samfélaginu hefur aldrei verið öflugri en akkúrat núna. Það er líka þannig að á síðasta kjörtímabili, þegar ríkisstjórnin átti í vök að verjast og var undir lokin minnihlutastjórn, þá áttum við alltaf mjög sterkan meiri hluta á þingi á bak við öll græn mál. Það voru 38 atkvæði í þingsal með öllum grænum málum, þar á meðal var hv. þm. Birgitta Jónsdóttir. Þingmeirihlutinn í þeim málaflokki var sterkur og hann var ótrúlega pólitískt breiður líka. Það er mitt mat að nákvæmlega þess vegna, þótt við séum núna að mörgu leyti að horfa á stöðnunartímabil í náttúruverndarmálum í pólitíkinni, var ekki hægt, án þess að reisa mjög öflugar öldur, að koma hér fram og ætla að fella brott ný náttúruverndarlög. Það var einfaldlega ekki pólitískur möguleiki eins og einhver segir, það var pólitískur ómöguleiki, að gera það vegna þess að víglínan hafði færst. Ég held að við eigum eftir að sjá það þegar við skoðum þennan tíma í breiðara samhengi — við erum ekki bara að tala um á Íslandi, þetta á við um heiminn allan — að umhverfis- og náttúruverndarmál eru að komast ofar (Forseti hringir.) á dagskrá stjórnmálanna alls staðar í heiminum.