143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

511. mál
[21:06]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tók undir viðhorf hv. þingmanns í ræðu minni áðan því að mér finnst einsýnt að þessi partur af rammaáætluninni eigi að fara til hv. umhverfis- og samgöngunefndar alveg eins og síðasta áætlun var látin fara til hv. umhverfis- og samgöngunefndar. Ég átta mig ekki á því af hverju í ósköpunum menn eru að flauta til þessa leiks hér.

Ég vil spyrja hv. þingmann. Nú hefur orkumálastjóri lagt fram fjöldan allan af tillögum og biður verkefnisstjórnina að kanna hvort eigi að færa úr verndarflokki í nýtingarflokk eða færa um flokk og vill láta skoða það betur og þar er stærsti hlutinn virkjunarkostir sem ekkert nýtt hefur komið fram um á undanförnu sem gefur tilefni til þess að hann geri það. Getur verið að það sé eitthvað í lögunum um rammaáætlun og í anda þeirra, sem við þekkjum sem unnum með rammaáætlun og töldum að ekki væri hægt að túlka á þann hátt sem gert er, sem þurfi að skýra betur? Eða náttúruverndarlögunum? Fyrst og fremst þó í lögunum um rammaáætlun því að auðvitað er allt þetta ferli sem hefur tekið tugi ára ekki búið til til þess að á ári hverju sé allt kerfið tekið upp og skoðað að nýju. Það er með endanlegar flokkanir þótt auðvitað hljóti að vera einhver glufa ef eitthvað sérstakt kemur upp á, en það virðist vera túlkað óskaplega vítt. Þurfum við þá ekki að laga lögin?