143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

511. mál
[21:32]
Horfa

Edward H. Huijbens (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir samtalið, andsvörin og spjallið. Ég skal reyna eftir bestu getu að svara spurningum hennar án þess að hafa lesið í þaula allar þær rannsóknir sem til grundvallar liggja. En að mínu viti og eins og þetta er kynnt í frumvarpinu og af ferli málsins sem ég hef kynnt mér liggur fyrir að búið er að kanna laxastofninn og taka hann út ítarlega.

Hv. þingmaður spyr hvort eina leiðin til að komast að þessu sé bara með því að virkja og sjá hvað gerist. Það er auðvitað langbest, en mögulega líka langverst. Eina sem ég er að segja er að ég hefði viljað sjá ámóta rannsókn og þá sem gerð var á laxastofninum og áhrifum á hann sem slíkan á mótvægisaðgerðunum sjálfum, þ.e. að skoða þær sem slíkar miklu nánar og að sambærileg rannsókn lægi þar til hliðar líka. Miðað við þann tíma sem það tók prófessor Skúla Skúlason og félaga að stúdera þetta, það voru það átta mánuðir eða svo, þá get ég ímyndað mér að það geti farið fram á innan við einu ári. En ég mundi vilja sjá þá liggja hlið við hlið þessa tvo þætti, vegna þess að klárlega, miðað við viðauka 3, þ.e. umsögn Þóru Ellenar Þórhallsdóttur prófessors, er deilt um þetta atriði og svo virðist vera af umsögnum líka. Þess vegna hefði ég viljað fá það alveg á hreint.