143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

511. mál
[21:39]
Horfa

Edward H. Huijbens (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aftur þakka ég hv. þingmanni andsvarið og samtalið sem hér á sér stað.

Ég vil taka fram í þessu púlti og í embætti mínu hér sem varaþingmaður Norðausturkjördæmis að ég ber fullt traust til þeirrar verkefnisstjórnar sem skipuð var í mars 2013. Þar er einvalalið og ber ég fullt traust til þess fólks sem þar er.

Já, það er rétt að markmiðið með biðflokknum var að afla frekari gagna, safna frekari gögnum. Ég tel mig hafa rökstutt í ræðu minni nokkuð vandlega hvað vantar þar upp á. Ég vil einfaldlega sjá það klárað og vil halda þeirri skoðun til haga að ég berst fyrir því að gengið verði lengra, eins og endurspeglast í umsögnum og í viðauka sem er sérálit eins fagaðila í verkefnisstjórninni, þar endurspeglast nákvæmlega það sjónarmið sem ég vil halda hérna á lofti. Það er allt og sumt.

Eins og hv. þingmaður benti á er það einmitt heildarendurskoðun eða heildarmat sem farið getur fram á fjögurra ára fresti. Kjarni málsins í biðflokknum er sá að afla frekari gagna. Ég tel mig hafa sýnt fram á í ræðunni og með vísan til umsagna í frumvarpinu að ekki hafi verið nægjanlega vel að því staðið, að uppleggið í gagnaöflun og uppleggið til rannsókna hafi verið leiðandi og niðurstaðan ekki verið fullnægjandi. Það er meginatriði skoðunar minnar hér.