143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

511. mál
[22:39]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Nú verð ég að vísu að játa að mér er öðruvísi farið en hv. þingmanni hvað varðar afstöðu til inntaks tillögunnar. Ég á ákaflega erfitt með það, svo ekki sé nú meira sagt, að sætta mig við þá tilhugsun að Hvammsvirkjun verði reist niðri í byggðum blómlegum Þjórsárdalnum og í þeim hluta Þjórsár sem er fiskgengur frá sjó þótt með laxastiga sé. En ég er hins vegar sammála hv. þingmanni um að niðurstaða verkefnisstjórnar í þessu tilviki er mikill sigur fyrir afgreiðslu málsins hér á síðasta kjörtímabili í þeim skilningi að verkefnisstjórn leggur ekki til að hróflað verði við þeirri flokkun sem varð niðurstaðan eða þeim virkjunarkostum öðrum sem góð rök voru færð fyrir að ættu að færast í bið. Það er auðvitað mjög mikilvægt.

Af því að hv. þingmaður nefndi Holtavirkjun sérstaklega þá er ég honum auðvitað mjög ósammála ef skilja hefur mátt orð hans þannig að hann teldi að hún mætti þess vegna fljótlega eða jafnvel fyrr en síðar færast með Hvammsvirkjun yfir í nýtingarflokk, en ég vil spyrja hv. þingmann: Hefur hann ekki kynnt sér og lesið þá ágætu röksemdafærslu sem er í gögnum verkefnisstjórnar og fylgir að hluta til með þessari tillögu þar sem færð eru fram mjög sterk rök fyrir því að mikið vanti upp á rannsóknir á áhrifum þeirrar virkjunar og breyttra rennslishátta á svæðinu varðandi uppeldis- og búsvæði fiska á mikilvægustu svæðum Þjórsár þar sem eru svæðin alveg frá Búða og niður á Skeið, bæði vesturkvíslin frá Búða og svo Murneyrarkvísl? Ég tel að þar sé kominn fram jafnvel sterkari rökstuðningur en áður lá fyrir (Forseti hringir.) um að mikið vantar upp á til að hægt sé að hrófla við þeirri virkjun úr biðflokki.