143. löggjafarþing — 96. fundur,  11. apr. 2014.

skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um rannsókn á aðdraganda og orsökum erfiðleika og falls sparisjóðanna.

[15:14]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég segi bara eins og er að ég hef ekki haft aðgang að þessari skýrslu nógu lengi og hef ekki getað skoðað hana nógu vel til að halda einhverja efnislega ræðu um hana að því marki sem ég tel við hæfi. Það er vissulega ýmislegt hægt að segja um þessa skýrslu á þessum tímapunkti og margt sem hefur komið fram í ræðum fyrri ræðumanna hér hefur alveg verið áhugavert. Sérstaklega þótti mér vænt um ræður hv. þm. Katrínar Jakobsdóttur og hv. þm. Frosta Sigurjónssonar. Þótt ég deili ekki öllum skoðunum hans um peningakerfið tek ég vissulega undir sumt af þeirri gagnrýni sem hann leggur stundum á borð.

Hv. þm. Höskuldur Þórhallsson sagði með réttu að störf okkar ættu að taka mið af staðreyndum og rökum. Ég skil mætavel að hér sé eitthvert samkomulag í gangi um það hvernig dagskráin eigi að vera áður en við förum í páskafrí. Sólarhringur er samt ekki nógu langur tími til að við getum rætt þessa skýrslu með viðunandi hætti að mínu mati. Ekkert breytir því, hvort sem það eru góðar afsakanir fyrir því eður ei. Ég sé hérna á dagskrá, með leyfi virðulegs forseta:

„Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um rannsókn á aðdraganda og orsökum erfiðleika og falls sparisjóðanna, ein umræða.“

Ég veit ekki til þess að það sé á dagskrá að ræða skýrsluna aftur en ég mundi óska þess að við gætum rætt hana eftir páskafrí þegar við höfum haft tækifæri til að skoða hana almennilega og sérstaklega í samhengi við aðrar skýrslur. Það er nefnilega ekki nóg að lesa 1.875 blaðsíðna doðrant til að koma sér inn í málið. Maður þarf að spyrja spurninga. Maður þarf að velta fyrir sér hvað af því sem kemur fram í skýrslunni á við hvaða rök að styðjast. Maður þarf að tala við fólk, maður þarf að setja hlutina í miklu víðara samhengi til að draga einhverjar almennilegar ályktanir.

Meðan þannig er ætla ég ekki að ræða hér um efni skýrslunnar fyrr en það kemur tækifæri til að gera það almennilega.