143. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2014.

barnabætur.

411. mál
[15:48]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa fyrirspurn og tækifærið til þess að bregðast við athugasemdum og sjónarmiðum varðandi barnabæturnar.

Samkvæmt a-lið 68. gr. laga um tekjuskatt skal ríkissjóður greiða barnabætur vegna hvers barns innan 18 ára. Barnabætur eru tekjutengdar og ákvarðaðar samkvæmt skattframtali við álagningu opinberra gjalda á einstaklinga 1. ágúst ár hvert. Tekjustofn til útreiknings barnabóta er frábrugðinn tekjuskattsstofni að því leyti að fjármagnstekjur og laun frá alþjóðastofnunum sem ekki eru skattlögð koma inn í tekjustofn til útreiknings á barnabótum. Barnabætur eru reiknaðar í fyrsta skipti vegna barns við álagningu árið eftir að það fæðist og í síðasta skiptið við álagningu á því ári sem 18 ára aldri er náð. Bæturnar skiptast í fjórar greiðslur yfir árið, fyrirframgreiðsla upp í álagningu er greidd 1. febrúar og 1. maí. Við uppgjör í ágúst er fyrirframgreiðslan dregin frá barnabótum eins og þær eru ákvarðaðar við álagningu og eftirstöðvarnar greiddar út 1. ágúst og 1. nóvember.

Árið 2014 nema óskertar barnabætur hjóna og sambúðarfólks með fyrsta barni 167.564 kr. og með hverju barni umfram eitt 199.455 kr. Óskertar barnabætur einstæðra foreldra nema 279.087 kr. með fyrsta barni og með hverju barni umfram eitt 286.288 kr. Þá nemur viðbót með hverju barni yngra en sjö ára 100.000 kr. Hjá hjónum og sambúðarfólki reiknast skerðing vegna tekna á samanlögðum tekjuskattsstofni umfram 4,8 millj. kr. og hjá einstæðu foreldri af tekjustofni umfram 2,4 millj. kr. Sé um að ræða eitt barn skerðast barnabætur um 3% af tekjum umfram þessi mörk, ef börnin eru tvö um 5% og ef börnin eru þrjú eða fleiri um 7%. Skerðing á viðbót vegna barna yngra en sjö ára er reiknuð sér og nemur hún 3% af tekjum umfram mörk fyrir hvert barn.

Það er því rétt hjá hv. þingmanni að þessi viðmiðunarmörk breytast ekki með launavísitölu eða öðrum vísitölum heldur eru fjárhæðarmörkin óbreytt á milli ára.

Það voru engar breytingar gerðar á ákvæðum tekjuskattslaga um barnabætur fyrir árið 2014 og það er ekki skylt samkvæmt lögum að hækka viðmiðunarfjárhæðir um hver áramót líkt og fjárhæðarmörk tekjuskattsstofns og persónuafsláttar, sem taka vísitölubreytingu í upphafi hvers árs. En hafa ber í huga að á árunum 2009–2012 héldust þessar sömu viðmiðunarfjárhæðir barnabóta óbreyttar, en álagningarárið 2013, kosningaárið, varð umtalsverð hækkun á skerðingarmörkum tekna og viðmiðunarfjárhæðir voru hækkaðar um 10%. Það er nú m.a. horft til þess fyrir árið 2014 að þessi nýlega hækkun á viðmiðunarfjárhæðunum hafi komið inn.

Mér finnst einnig rétt að hafa í huga að ríkisstjórnin stóð fyrir því að miðþrepið í skattlagningu tekjuskatts einstaklinga var lækkað á síðasta ári. Það kemur rúmlega 80% þeirra sem greiða tekjuskatt til góða, þ.e. langflestir greiða tekjuskatt í miðþrepinu, síðan eru auðvitað líka einhverjir sem greiða í efsta þrepinu, en yfir 90% greiða bæði í miðþrepinu og hæsta þrepinu. Lækkun tekjuskatts mun því auka ráðstöfunartekjur heimilanna í heild um 5 milljarða á árinu 2014, enn meira á árunum 2015–2017.

Í heild takmarkast svigrúm ríkisstjórnarinnar til ráðstafana til að koma til móts við barnafjölskyldur við stöðuna í ríkisfjármálum hverju sinni. Hér ber líka að hafa það í huga að tekið er ríkt tillit til barnafjölskyldna víða í kerfinu, miklu víðar en bara í barnabótakerfinu sem slíku.

Ég vil koma því að hér í blálokin að þær úttektir sem við höfum gert vegna lækkunar höfuðstóls verðtryggðra lána sýna að það fer hlutfallslega meira til barnfleiri (Forseti hringir.) fjölskyldna en barnfærri.