143. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2014.

barnabætur.

411. mál
[15:57]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Menn gerðu ráð fyrir því að þar sem fallið var frá tillögum um niðurskurð á barnabótum mundu þeir 10,2 milljarðar sem ætlaðir eru í barnabætur í fjárlögunum ganga til barnafjölskyldna. Það gera þeir ekki nema þessum viðmiðunartölum sé breytt.

Allar greiningar sýna að barnafjölskyldur eru í mestum vanda og þá skiptir engu hvort þær eiga húsnæði eða leigja. Það er því afar mikilvægt að barnabætur verði ekki skertar og sett verði í forgang að finna leiðir til að hækka þær.

Tillögur um niðurskurð á barnabótum féllu í grýttan jarðveg við afgreiðslu fjárlaga. Það er samt heiðarlegri aðferð að leggja það formlega til og taka umræðu um það í þingsal að skera niður bæturnar heldur en gera það með þeim hætti sem hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra segir að eigi að standa, þ.e. með duldum niðurskurði og að sú fjárhæð sem ætluð var til barnabóta með fjárlögum gangi ekki til barnafjölskyldna.

Tekjur heimila, bæði hvað varðar laun og félagslegar bætur, eru helsti áhrifaþáttur barnafátæktar sem er skammarlega mikil hér á landi, okkar annars gjöfula landi. Besta leiðin til að bæta úr vandanum með almennum hætti er að hækka barnabæturnar og mest til þeirra sem búa við erfiðustu aðstæðurnar. Stærsti hópurinn þar er barnafjölskyldur sem eiga ekki húsnæði og eyða hlutfallslega stærstum hluta launa sinna í leigu á húsnæði. Það fólk fær ekki neitt úr stóra skuldaleiðréttingarpakkanum. Ég hlýt því að spyrja hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hvort ekki standi til að breyta reglunum (Forseti hringir.) þannig að þeir 10,2 milljarðar sem Alþingi samþykkti að ættu að renna til barnafjölskyldna geri það.