143. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2014.

barnabætur.

411. mál
[15:59]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Það er einhver misskilningur hér á ferð. Talan í fjárlögum er reiknuð stærð. Hún er reiknuð út frá tilteknum forsendum. (Gripið fram í: Það er enginn misskilningur hér.) Misskilningurinn liggur í því að til stóð að skerða barnabætur samhliða því að dregið var úr heildarframlaginu í fjárlögum en þar sem fallið var frá skerðingunni var engin ástæða til að breyta fjárhæðarmörkunum eða tekjutengingarmörkunum. Ef hagræðingarkrafan hefði náð fram að ganga hefðu fjárhæðarmörkin breyst.

Staðan er þessi: Fólk á rétt á tilteknum barnabótum samkvæmt lögum. Það er tiltekin fjárhæð og svo er tiltekin tekjutenging, þetta er reiknuð stærð. Ef menn hafa ekki sett næga fjármuni á fjárlögum á bak við viðkomandi bótaflokk þarf að koma fram viðbótarframlag á aukafjárlögum. Þetta er ekki þannig að sá sem kemur síðastur verði skilinn eftir út undan. Þess vegna er aðalatriðið það hver fjárhæðarmörkin eru og þau eru óbreytt á milli ára. Engar skerðingar á barnabótum er að finna í fjárlögum fyrir árið 2014. Það var hins vegar hugmynd uppi um að fara í hagræðingarkröfu á barnabætur og það hefði leitt til þess að menn hefðu annaðhvort þurft að fara í fjárhæðina eða í tekjuviðmiðunarmörkin til að ná fram þeirri hagræðingarkröfu en það var fallið frá því. (Gripið fram í: Þetta er rangt.) Þetta eru óbreyttar fjárhæðir fyrir árið 2014. Það er bara þannig.