143. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2014.

Siglufjarðarvegur og jarðgöng.

469. mál
[16:56]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Kristjáni L. Möller fyrir að setja fram þessa fyrirspurn því að þetta er jú eitthvað sem við þekkjum afar vel. Þegar maður starfar í ferðaþjónustu eins og ég hef gert fær maður til sín gesti sem aka um þetta svæði og finnst það verulega áhættusamur akstur svo ekki sé meira sagt. Sumir hafa verið illa staddir þegar þeir hafa komið sökum hræðslu.

Svæðið hefur stækkað gríðarlega eins og kom fram í máli hæstv. ráðherra. Frá því að ég var stelpa í sveitinni hjá ömmu og afa þarna í Fljótunum hefur það stækkað mikið, er þrefalt stærra en það var þá. Náttúran er alveg óútreiknanleg, hún lætur ekkert að sér hæða. Vegurinn gæti rofnað og hvað gerum við þá? Þrátt fyrir að ekki séu taldar mjög miklar líkur á því má alveg spyrja sig: Hvað gerist þá? Ef vegurinn yrði færður ofar — landið er allt á hreyfingu — hvað mundi það þýða fyrir okkur ef vegurinn rofnaði? (Forseti hringir.) Er það raunveruleg lausn að leggja veginn ofar?