143. löggjafarþing — 99. fundur,  29. apr. 2014.

veiðigjöld.

568. mál
[16:40]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ágætisræðu og vangaveltur um lausnir varðandi hvernig við getum best gert þetta.

Mig langar að beina nokkrum atriðum til hv. þingmanns. Í fyrsta lagi er ég sammála honum um að ekki eigi fyrst að ákveða tölur og síðan álögurnar. En ég veit ekki hvort hv. þingmaður hefur gert sér grein fyrir því að hugmyndirnar um gjaldtökur á sínum tíma voru að almenna gjaldið væri einhver krónutala, líkt og hv. þingmaður nefndi, en sértæka gjaldið rynni í auðlindasjóð eða í sérstök verkefni og að haldið væri utan við ríkissjóð, vegna þess að menn gerðu sér grein fyrir að það mætti ekki vera þannig að ríkissjóður yrði háður því að fá ákveðin gjöld frá útgerðinni. Mig langar að heyra hvort hv. þingmaður hefur fylgst með umræðunni og hvað honum finnst um þetta, vegna þess að hann kom með athyglisverða ábendingu sem er ekki alveg í samræmi við það sem frumvarpið boðar, sem er að það verði fast gjald að verulegu leyti, ef ég man rétt, að borgað verði fyrir aðgang að auðlindinni og allir borgi sama gjald. Ég vona að ég hafi ekki misskilið það.

Í öðru lagi langar mig að benda á varðandi uppboðið að það er tillaga um hvernig það gæti verið meðal annars í sáttanefndinni sem oft er verið að vitna í. Þar er útfærð tillaga á því hvernig er hægt að fara að en því miður hlaut hún engan hljómgrunn þar og hefur þess vegna ekki verið til umræðu. Hv. þingmaður fór ágætlega yfir það og við erum alltaf að tala um hófleg veiðigjöld en það hefur ekki tekist að koma þeim á frá því að þetta var rætt um aldamótin, menn hafa ekki fundið út hvað sé hóflegt. Mig langar að vita skoðun hv. þingmanns á því hvað sé hóflegt.

Við vorum að ræða að erfitt er að leggja á fiskvinnsluna, en nú vitum við að menn geta átt innherjaviðskipti á milli veiða og vinnslu. Er þá hv. þingmaður á þeirri skoðun að við ættum að skilja að á milli vinnslu og veiða þannig að það sé betur hægt að halda utan um þau viðskipti og halda þá gjaldtökunni við hvort atriði fyrir sig?