143. löggjafarþing — 101. fundur,  30. apr. 2014.

opinber fjármál.

508. mál
[17:29]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að benda á þær miklu skuldbindingar sem ríkið er í ábyrgð fyrir eins og hann hefur iðulega gert og snúa m.a. að lífeyrisskuldbindingum ríkisins sem eru mjög umfangsmiklar og fjallað er um í frumvarpi til fjárlaga fyrir yfirstandandi ár. Það er mikilvægt að þeim verði ávallt haldið vel til haga í öllum upplýsingum um stöðu ríkisins.

Varðandi hins vegar Tryggingastofnun ríkisins þá gegnir aðeins öðru máli hvað slíkar skuldbindingar snertir. Þær skuldbindingar geta annars vegar ráðist af mannfjöldaþróun í landinu og það hversu margir á vinnumarkaði geta staðið að baki þeim sem eru komnir á lífeyrisaldur eða þiggja örorkulífeyri á hverjum tíma. Hins vegar geta slíkar skuldbindingar líka tekið breytingum til hækkunar eða jafnvel lækkunar ef þingið tekur ákvörðun um að skerða þau réttindi sem þar er um að ræða. Þau réttindi eru því ekki jafn föst í hendi til langs tíma og þegar áunnin lífeyrisréttindi sem eru í lífeyriskerfinu. Mér fannst rétt að nefna þetta í þessu samhengi.

Að öðru leyti vék hv. þingmaður að þessum skuldbindingum í víðara samhengi, sem ég tel að nýjar reikningsskilareglur muni betur en samkvæmt núgildandi lögum vera teknar til í uppgjöri.