143. löggjafarþing — 102. fundur,  2. maí 2014.

framkvæmdarvald og stjórnsýsla ríkisins í héraði.

250. mál
[13:55]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurningarnar.

Í fyrsta lagi, að því er varðar 2. gr. og hvar aðalskrifstofurnar verði staðsettar, sem kemur réttilega fram í spurningu hv. þingmanns að sé ráðherrans að útfæra, þá er ég sammála því. Ég kom aðeins að því í upphafi framsögu minnar að þetta er kannski erfiðasta verkefnið og það er skilið eftir, en um leið freistar nefndin þess að ná utan um það með þeim hætti sem kemur fram í orðalagi í greinargerð en ekki síður í samtölum við ráðuneytið og í samtölum við landshlutasamtökin.

Við ræddum þetta aðeins í andsvörum, ég og hv. þm. Guðbjartur Hannesson, hvort hægt væri að setja niður einhverjar „kríteríur“, hvaða reglum eigi að beita. Getum við miðað við fjölda íbúa? Getum við miðað við vegalengdir? Getum við miðað við byggðasjónarmið? Getum við miðað við stærð sveitarfélagsins sem um ræðir, o.s.frv.? Við komumst að þeirri niðurstöðu að þetta væru allt saman góðir og gildir mælikvarðar en enginn einn þeirra dygði og stundum toguðu þeir hvor í sína áttina þannig að við vorum ekki miklu nær. En ég er sammála því að við höfum ekki lausn á því ef þetta gengur ekki vel, þ.e. ef menn geta einfaldlega ekki komið sér saman um það í stóru héraði hvar þessi embætti eigi að vera staðsett, þá situr framkvæmdarvaldið uppi með það að ljúka því. En við ræddum þetta töluvert í nefndinni.

Varðandi skipan sýslumanna og 30 ára aldursmarkið þá var þetta svona í lögunum. Nefndin fjallaði ekkert um það sérstaklega, eða a.m.k. ekki á neinum fundum sem ég var stödd á, þannig að þetta er bara til umhugsunar og umfjöllunar. Ég geri ráð fyrir því að hv. þingmaður á því geti beitt sér í þá veru ef hann hefur miklar skoðanir.