143. löggjafarþing — 106. fundur,  6. maí 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[16:12]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að spyrja þingmanninn hvort hann geti frætt mig. Þessi ríkisstjórn lýsti yfir hallalausum fjárlögum og það var gert á grundvelli þess að menn höfðu settu upp hvað þeir ætluðu að fá í ríkissjóð og hverju þeir ætluðu að úthluta. Menn settu sér að taka inn ákveðin gjöld en lækkuðu þau síðar meir. Hefur þingmaðurinn á hreinu hvernig það endaði? Þeir byrjuðu á því að ætla að vera með hallalausu fjárlögin í 500 milljónum í plús. Svo var það komið niður í 300 milljónir. Ég held að það hafi verið hækkað eitthvað upp eftir það. Hefur þingmaðurinn það á hreinu? Og hvaða áhrif mun lækkun á gjöldum núna hafa? Verða fjárlögin sem lögð voru fram ekki hallalaus þegar allt kemur til alls?

Það kemur fram í frumvarpinu að lækka eigi gjöld, sem er ánægjulegt, bensíngjald, olíugjald, kílómetragjald og gjald á áfengi og tóbaki. Það eru tölur í frumvarpinu um lækkun gjalda á eldsneyti, áfengi og tóbak um 1%, sem leiðir til að tekjur ríkissjóðs lækka um 460 milljarða. Af þeim eru 190 milljarðar vegna tóbaksgjalds sem kemur að einhverju leyti til baka í ríkissjóð því að þeir ætla að taka meiri arð út úr ÁTVR. Þarna eru alla vega um 250–270 milljarðar sem standa út af. En þetta er ekki allt sem á að lækka. Það á líka að lækka umhverfis- og auðlindaskatt og stimpilgjöldin. Hefur þingmaðurinn þær tölur? Þýðir þetta að fjárlögin sem voru kynnt verði í raun ekki hallalaus?