143. löggjafarþing — 106. fundur,  6. maí 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[17:35]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nú ætla ég ekki að tala fyrir hönd almennra flokksmanna í Sjálfstæðisflokknum en get kannski sagt um þetta mál, aðeins til að setja það í samhengi, forgangsröðunina í skatta- og gjaldtökunni: Ef menn hefðu framlengt auðlegðarskattinn þó ekki hefði verið nema í eitt ár, bara í eitt ár, tólf mánuði sem 5.000 ríkustu heimilin í landinu hefðu þurft að leggja aðeins af mörkum af velsæld sinni, þá hefði það skilað 10 milljörðum í ríkissjóð. Það að hækka öll gjöld sem nemur verðlagshækkunum nú um áramótin, það skilaði tæpum 2 milljörðum. Slíkar gjaldahækkanir í heilt kjörtímabil eru þá einhvers staðar innan við 8 milljarða, þ.e. að með því að halda auðlegðarskattinum í eitt ár hefði ríkisstjórnin ekki þurft að fara í almennar gjaldahækkanir allt kjörtímabilið. Það lýsir býsna vel forgangsröðun ríkisstjórnarinnar. Hún snýr ekki að því að halda aftur af gjöldum á venjulegt fólk í landinu, gjöldum á olíu og bensín og rafmagn og hita og að maður nú ekki tali um á sjúklinga í komugjöldum eða stúdenta í skólagjöldum. Nei, ofuráhersla ríkisstjórnarinnar er á það að létta gjöldum af 5.000 ríkustu heimilunum í landinu og síðan af Landssambandi íslenskra útvegsmanna.