143. löggjafarþing — 106. fundur,  6. maí 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[17:38]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég rengi þingmanninn ekkert um það og hann þarf ekki að grafa það sérstaklega upp, ég tek bara orð hans fyrir því að hann hafi sagt eitthvað slíkt hér í ræðustól. En ég man nú fleira. Ég man líka eftir þingmáli Sjálfstæðisflokksins á liðnu kjörtímabili um eldsneytisgjöld. Ég bið hv. þingmann um að leiðrétta mig ef ég fer eitthvað rangt með, ef hann hefur ekki verið í hópi þingmanna Sjálfstæðisflokksins sem fluttu það mál. Ég veit ekki betur en að formaður Sjálfstæðisflokksins hafi verið 1. flutningsmaður og að allir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafi verið á málinu. En ef hv. þingmaður hefur ekki verið flutningsmaður að málinu þá leiðréttir hann það og ég bið hann þá fyrir fram velvirðingar á því að hafa haft hann fyrir rangri sök.

Ég hélt að hv. þingmaður hefði flutt hér þingmál um nauðsyn þess að lækka krónutölugjöld á eldsneyti og að jafnframt hafi verið fullyrt í því þingmáli, sem ég taldi að hv. þm. Pétur H. Blöndal hefði staðið að með öðrum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, að eftir þá lækkun mundu gjöldin engu að síður skila sömu tekjum vegna þess að neyslan mundi aukast. Ef það er rétt munað hjá mér að þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafi undir forustu hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra, Bjarna Benediktssonar, flutt þingmál um að lækka gjöld á eldsneyti, af hverju er það þá þeirra fyrsta verk þegar þeir komast í meiri hluta að flytja tillögu um að hækka þessi sömu gjöld?