143. löggjafarþing — 106. fundur,  6. maí 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[18:11]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Já, ég tek undir það hjá hv. þingmanni að þetta er orðið sýndarfrumvarp og stenst enga skoðun miðað við það sem lagt var upp með í desember á síðasta ári. Sem dæmi um það má nefna að lækkun á raforkuskatti á stóriðju í landinu fer nú úr 13 kr. í 12,90 kr. Maður spyr sig: Hvaða áhrif hefur þetta á verðstöðugleika í landinu? Hvaða leikaraskapur er þetta varðandi það að vera að hræra í þessum raforkuskatti á stóriðju í landinu?

Eitt af því sem skiptir miklu máli fyrir kjör fólks vítt og breitt um landið er gífurlega hár orkukostnaður. Okkur hefur ekki enn tekist að afgreiða hér á Alþingi breytingar sem snúa að því að jafna orkuverð í landinu. Það frumvarp er enn í nefnd og ég veit ekki hver afdrif þess verða. En það skiptir miklu máli fyrir fjöldann allan af heimilum, sem býr við mjög hátt orkuverð úti á landi, að fá lækkanir þar inn og jöfnun á raforkuverði. Þar var stóriðjan tekin út fyrir sviga, hún átti ekki að taka þátt í þeirri jöfnun, eingöngu innan dreifiveitna, sem gerði að verkum að þá varð þetta hærri kostnaður til að jafna innbyrðis þann kostnað en hefði orðið ef stóriðjan, stórfyrirtækin, hefði verið inni í þeirri breytu. En allt ber að sama brunni að það á að hlífa öllum hinum (Forseti hringir.) stóru og sterku en það er alltaf lítilmagninn sem má blæða.