143. löggjafarþing — 106. fundur,  6. maí 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[19:27]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég er sammála ályktun landsþings Sjálfstæðisflokksins um að forgangsraða eigi skattfé til öruggs heilbrigðiskerfis og góðrar menntunar. Þar er ég sammála þeim. Um það var ályktað á landsfundi Sjálfstæðisflokksins, ég er hjartanlega sammála því. Það er ekki það sem verið er að gera hér, það er ekki það sem þessi ríkisstjórn hefur verið að gera.

Ég kom hingað upp og hélt ræðu af því að mér finnst mikilvægt að árétta að með þessu frumvarpi höfðu stjórnvöld ekki frumkvæði að lækkunum, þau höfðu það ekki í neinum forgangi þannig að það tafðist um marga mánuði og lækkanirnar sem lofað var skila sér þá ekki nema menn hækki prósentuna. Þetta er ekki raunveruleg lækkun frá því að ríkisstjórnin tók við vegna þess að gjöld voru hækkuð, gjaldskrárhækkanir voru nánast upp á 2 milljarða. Nú er verið að lækka gjöld um nokkur hundruð milljónir. Það stangast á við forgangsröðun flokksins. Það er ekki samkvæmt samþykkt landsþings flokksins. Það er ekki í samræmi við loforð ríkisstjórnarinnar við aðila vinnumarkaðarins. Þetta grefur undan trausti og þá á ekki að verðlauna flokksforustu Sjálfstæðisflokksins fyrir svona frumvarp.