143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[15:10]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans. Mig langar til þess að koma aðeins inn á tvennt, í fyrsta lagi það sem hann kom inn á í máli sínu og varðaði áhrifin á sparnað í landinu. Hv. þingmaður vísaði til þess að reynslan sýndi að aukið veðrými gæti hugsanlega leitt til þess að skuldsetningin mundi aukast. Ég vil biðja hv. þingmann um að skýra það aðeins betur, vegna þess að það atriði hefur komið hér upp í umræðunni allnokkrum sinnum og verið andæft af hálfu þingmanna stjórnarflokkanna. Ef hv. þingmaður gæti kannski reifað það aðeins betur.

Svo hitt. Það er varðandi húsnæðissparnað. Hv. þingmaður nefndi að hann teldi rétt og jákvætt að efla húsnæðissparnaðinn í landinu en vildi ekki tengja það séreignarlífeyrissparnaðinum. Ég er í sjálfu sér alveg sammála þeirri afstöðu, en gæti hv. þingmaður sagt kannski aðeins frá því hvernig hann mundi vilja sjá almennan húsnæðissparnað í framtíðinni?